Innlent

Meta neikvæð áhrif Covid-19 á fjárhag sveitafélaga á 33 milljarða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Áhrif Covid-19 faraldursins á fjárhag sveitarfélaga eru hlutfallslega mest þar sem umfang ferðaþjónustu er hlutfallslega stærst.
Áhrif Covid-19 faraldursins á fjárhag sveitarfélaga eru hlutfallslega mest þar sem umfang ferðaþjónustu er hlutfallslega stærst. Vísir/Vilhelm

Gera má ráð fyrir að samanlögð rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna allra hér á landi verði 26,6 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum ársins 2020. Með auknum fjárfestingum upp á 6,5 milljarða nær talan rúmlega 33 milljörðum.

Þetta er á meðal niðurstaðna sem finna má í skýrslu starfshóps um áhrif Covid-19 á fjármál sveitarfélaga sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Í skýrslunni, sem lesa má hér, segir meðal annars að almennt sé hægt að segja að að áhrif Covid-19 faraldursins séu hlutfallslega mest þar sem umfang ferðaþjónustu er hlutfallslega stærst og

þar sem ætla má að útgjöld vegna félagslegrar þjónustu og fjárhagsaðstoðar vegi þyngst. Þannig sé mörgum sveitarfélögum þröngur stakkur sniðinn hvað varðar viðbrögð við ástandinu, sérstaklega í ljósi þess hve reyna mun á framlög þeirra vegna lögbundinna verkefna, ekki síst í velferðar- og skólamálum.

Í skýrslunni segir einnig að til að setja tölurnar sem nefndar voru í upphafi í samhengi hafi heildarútgjöld sveitarfélaganna árið 2019 verið rúmlega 390 milljarðar króna. Áhrifin nemi því 8,5 prósent af heildarútgjöldum sveitarfélaga frá árinu 2019 eða um 1,1 prósent af vergri landsframleiðslu sama ár.

„Hér væru því um verulegar upphæðir að ræða í þjóðhagslegu tilliti,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Starfshópurinn áætlar að útsvarstekjur sveitarfélaganna, stærsti einstaki tekjustofn þeirra, muni dragast verulega saman. Sveitarfélögin hafi gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlunum sínum að útsvarstekjur ársins myndu nema rúmlega 223 milljörðum króna en samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir má ætla að útsvarstekjurnar verði nokkuð minni eða um 212 milljarðar króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×