Innlent

Sunnudagslægð í kortunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Landsmenn ættu að búa sig undir bleytu.
Landsmenn ættu að búa sig undir bleytu. vísir/vilhelm

Fólk á vestanverðu landinu ætti að búa sig undir stöku skúrir í dag. Rigningin er upphitun fyrir það sem koma skal en kort Veðurstofunnar bera með sér vætu eins langt og spárnar ná. Þá mun jafnframt hvessa á sunnudag, svo mikið að ökumenn með aftanívagna gætu þurft að hafa varann á.

Veðurfræðingur segir að það verði vestlæg átt í dag. Víða skýjað og sums staðar súld eða rigning um landið vestanvert, en yfirleitt þurrt á austurhelmingi landsins. Hitinn verði á bilinu 8 til 16 stig að deginum og hlýjast á Suðausturlandi.

Það verði þó hægari vindur á morgun, „en annars svipað“ eins og veðurfræðingurinn orðar það. Það verði skýjað að mestu og sums staðar lítilsháttar væta en líklega muni haldast þurrt á suðausturhorninu. Hitinn verði jafnframt á svipuðu slóðum og í dag eða á bilinu 10 til 15 stig.

Landsmenn ættu jafnframt að búast við því að það hvessi eftir því sem líður á helgina. „Sunnudagslægð“ sé í kortunum og segir veðurfræðingur að þau sem „ætla sér að ferðast með aftanívagna og eða bíla sem taka á sig mikinn vind [eigi að] hafa það í huga að aðstæður gætu orðið mjög krefjandi, einkum við fjöll, þar sem strengir myndast.“ Að öðru leyti verði fremur milt veður.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Vestlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s, skýjað að mestu og sums staðar lítilsháttar væta, en þurrt suðaustantil. Hiti 10 til 15 stig.

Á sunnudag:

Gengur í suðaustan 8-15 m/s með rigningu, en hægari og þurrt NA-lands. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast NA-lands.

Á mánudag:

Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og rigning á köflum. Hiti 10 til 15 stig.

Á þriðjudag:

Breytileg og síðar N-læg átt og rigning með köflum, en þurrt að kalla suðaustanlands. Kólnar heldur á N-landi.

Á miðvikudag:

Norðlæg átt með dálítilli vætu fyrir norðan og líkum á síðdegisskúrum syðra. Hiti 7 til 15 stig, svalast fyrir norðan.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir norðaustanátt. Léttskýja og milt SV-til, en annars skýjað og mun svalara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×