Erlent

Ver frelsi til að vera ber­brjósta í sól­baði

Atli Ísleifsson skrifar
Sífellt færri konur kjósa að fara í sólbað berbrjósta og er iðjan fátíðari meðal franskra kvenna en til dæmis á Spáni og Þýskalandi.
Sífellt færri konur kjósa að fara í sólbað berbrjósta og er iðjan fátíðari meðal franskra kvenna en til dæmis á Spáni og Þýskalandi. Getty

Innanríkisráðherra Frakklands hefur varið þá iðju kvenna að vera berbrjósta í sólbaði eftir að lögreglumenn í landinu báðu hóp kvenna að hylja sig þar sem þær voru í sólbaði á strönd í suðurhluta landsins.

BBC segir frá því að tveir lögreglumenn hafi nálgast þrjár konur á ströndinni í Sainte-Marie-La-Mer eftir kvörtun frá fjölskyldu á ströndinni sem hafði áhyggjur af því hvaða áhrif þetta kynni að hafa á börnin.

Fréttir af viðbrögðum lögreglumannanna hafi valdið mikilli reiði á samfélagsmiðlum sem og víðar í landinu.

„Frelsið er verðmætt,“ sagði innanríkisráðherrann Gérald Darmanin í tísti þar sem hann lýsti yfir stuðningi við konurnar. Rangt hafi verið að biðja konurnar um að hylja sig með klæðum.

Lögregla í Pyrenees-Orientales greindi frá atvikinu á Facebook, en það átti sér stað í síðustu viku.

Ekki er bannað að stunda sólbað berbrjósta í Frakklandi, þó að einstaka sveitarfélög geti bannað þá iðju með reglugerðum. Engum slíkum reglum hefur hins vegar komið á í Sainte-Marie-La-Mer.

Sífellt færri

BBC vísar í könnun síðunnar VieHealthy frá árinu 2019 þar sem segir að sífellt færri franskar konur kjósi að fara í sólbað berbrjósta og að iðjan sé fátíðari meðal franskra kvenna en til dæmis á Spáni og Þýskalandi.

Segir að 22 prósent franskra kvenna hafi farið í sólbað berbrjósta, samanborið við 48 prósent spænskra kvenna og 34 prósent þýskra kvenna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×