Innlent

Sorphirða hefst í Breiðholti á morgun

Andri Eysteinsson skrifar

Byrjað verður á að hirða sorp í Breiðholti í fyrramálið eftir að undanþága frá verkfalli Eflingar fékkst á dögunum vegna lýðheilsusjónarmiða. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að öll sorphirða í borginni sé á eftir áætlun.

Byrjað verður eins og áður segir á Breiðholti en eftir að því lýkur verður haldið upp í Árbæ en ekki náðist að hirða sorp í hverfunum tveimur áður en að verkfall Eflingar hófst.

Aðeins verður hirt blandað heimilissorp í vikunni en sorphirðan biður íbúa sérstaklega um að tryggja gott aðgengi að sorpgeymslum með því að moka vel frá.

Undanþágunefnd Eflingar veitti undanþáguna í liðinni viku vegna lýðheilsusjónarmiða í tengslum við kórónuveiruna sem breitt hefur úr sér að undanförnu. Eitt tilfelli hefur greinst hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×