Innlent

Níu Íslendingar smitaðir af kórónuveirunni

Andri Eysteinsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Víðir Reynisson hjá almannavörnum og Alma Möller landlæknir á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar.
Víðir Reynisson hjá almannavörnum og Alma Möller landlæknir á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar. Vísir/Vilhelm

Þrjú tilfelli kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19 greindust til viðbótar í kvöld og eru þau því níu í heildina. Um er að ræða tvær konur og einn karl. Þau eru á fimmtugs- og sextugssaldri.

Þetta staðfestir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við Vísi.

Af þessum tilfellum hafa tvö tengingu við Norður-Ítalíu en þessir einstaklingar komu til landsins frá Veróna á Ítalíu á laugardaginn. Unnið er að smitrakningu á þriðja tilfellinu. 

Níu Íslendingar hafa því greinst með kórónuveiru frá því á föstudaginn síðasta. Allir hinir smituðu eru nú í einangrun á heimilum sínum. Allir sýna hinir smituðu venjuleg einkenni COVID-19 sjúkdómsins en teljast ekki alvarlega veikir.

Víðir segir í samtali við Vísi að þessi þrjú nýju tilfelli hafi bæst við í greiningu á um það bil tuttugu sýnum sem gerð var seinnipartinn í dag og fram eftir kvöldi. Unnið er við greiningu sýna til klukkan 20 á kvöldin.

Hann segir þá tvo einstaklinga sem komu frá Veróna á laugardaginn hafa farið strax í sóttkví þar sem fundu fyrir einhverjum einkennum. Það eru því allar líkur taldar á því að þeir hafi smitast úti á Ítalíu en ekki hér heima.

Um 280 manns eru nú í sóttkví hér á landi vegna kórónuveirunnar og segir Víðir ekki marga bætast við þá tölu vegna nýju tilfellanna; eftir því sem hann best veit séu þrír til viðbótar farnir í sóttkví.

Fyrsta tilfelli kórónuveiru hér á landi var staðfest síðastliðinn föstudag þegar karlmaður á fimmtugsaldri greindist með veiruna. Í gær greindust svo tveir til viðbótar og í dag hafa síðan sex ný tilfelli bæst við.


Tengdar fréttir

Skoða stöðu hótelstarfsmanna sem eiga að vinna í Farsóttarhúsinu

Hótelstarfsmenn sem munu vinna í Farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg er frjálst að hafna því að starfa þar að sögn yfirvalda. Stéttarfélaginu Eflingu hafa borist fyrirspurnir vegna málsins í dag og er unnið að því að kanna stöðu starfsmannanna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.