Innlent

Eldra fólk veigrar sér við að koma á heilsugæslustöðvar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Eldra fólk er farið að veigra sér við að koma á heilsugæslustöðvar af ótta við að fá kórónuveiruna og óskar í meira mæli eftir ráðgjöf í síma. Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir mikilvægt að verja viðkvæmustu hópana. 

Fjöldi látinna af völdum kórónuveirunnar hækkar með hverjum deginum. Veiran leggst þyngst á þá sem eldri eru og með undirliggjandi sjúkdóma og veldur það mörgum sem tilheyra þeim hópi áhyggjum.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að nú þegar sé eldra fólk farið að reyna að komast hjá því að mæta á heilsugæslustöðvar til að hitta lækna og hjúkrunarfræðinga og vill þess í stað frekar ræða við þau í gegnum síma. „Við finnum fyrir því. Fólk vill frekar taka viðtal í síma og við getum oft látið það duga þannig það er mjög skynsamlegt að beita þeirri aðferð ef við bara getum. Þetta kemur frá fólki sjálfu því auðvitað hugsar fólk og veit alveg að maður á ekki að fá þessa pest,“ segir Óskar

Hann segir aðeins orðið vart við kvíða og ótta hjá eldra fólki vegna útbreiðslu veirunnar. „Það er kannski enn sem komið er þá er fólk fyrst og fremst hrætt við það að veikjast og það gildir í sjálfu sér um alla,“ segir Óskar.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×