Innlent

Krefjast aukinna aðgerða og halda mótmælum áfram

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björgum jöklunum voru skilaboð þessa mótmælanda við Hallgrímskirkju í dag.
Björgum jöklunum voru skilaboð þessa mótmælanda við Hallgrímskirkju í dag. Vísir/Vilhelm

Í dag er ár liðið frá því loftslagsverkfallið og hreyfingin Föstudagur til framtíðar var stofnuð. Að þessu tilefni komu ungmenni saman fyrir Hallgrímskirkju rétt fyrir hádegi og héldu þaðan á Austurvöll þar sem ávörp verða flutt og kröfur um aðgerðir í loftslagsmálum ítrekaðar.

Nokkrir tugir ungmenna voru við Hallgrímskirkju um tólfleytið og þeirra á meðal var Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs. Hún er sannfærð um að föstudagsverkföllin undanfarið ár hafi skilað sínu.

„Já ég held að þetta hafi klárlega skilað einhverju,“ segir Jóna Þórey og nefnir helst almenningsumræðuna og vitundarvakningu.

Hópurinn á leið frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll.Vísir/Vilhelm

„Markmiðið var að krefast aukinna aðgerða frá stjórnvöldum. Það hefur vantað. Þess vegna höldum við áfram.“

Hún kannast við að ungt fólk sé skelkað og hrætt vegna ástandsins í loftslagsmálum. Verkföllin séu ein leið til að fá útrás og standa saman. Þá sjái ungmenni að fleiri deili áhyggjum þeirra.

Jóna Þórey segist hafa fulla trú á því að unga kynslóðin geti snúið við blaðinu. Vandamálið þurfi þó að skoða í stærra samhengi. Framtíðin sé unga fólksins, hún sé björt og í þeirra höndum en bregðast þurfi við núna. Unga fólkið stýri ekki gangi mála og þetta sé það tól sem þau geti beitt; láta í sér heyra.

Kröfugangan endaði á Austurvelli.vísir/vilhelm
Ávörp voru flutt á Austurvelli í dag.vísir/vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×