Innlent

Um­­­ferð afar hæg í snjónum á höfuð­­borgar­­svæðinu í morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá umferðinni á höfuðborgarsvæðinni í morgun. Bíll við bíl á Álftanesvegi.
Frá umferðinni á höfuðborgarsvæðinni í morgun. Bíll við bíl á Álftanesvegi. Vísir/Kolbeinn Tumi

Umferð hefur gengið afar hægt á höfuðborgarsvæðinu í morgun en engin óhöpp hafa þó orðið. Snjó hefur kyngt niður í höfuðborginni það sem af er morgni og áfram mun ganga á með éljum í dag, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Hannes Þór Guðmundsson varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að fólk hafi líklega farið af stað í seinna fallinu í morgun. Létta muni á umferðinni nú á tíunda tímanum. Þá hefur verkfall borgarstarfsmanna ekki áhrif á snjómokstur á götum borgarinnar.

Þegar Vísir náði tali af Guðbrandi Sigurðssyni aðalvarðstjóra hjá umferðardeild nú um níuleytið var hann staddur á Suðurlandsbraut á leið til vinnu og hafði þá verið um klukkutíma á leiðinni ofan úr Mosfellsbæ. Guðbrandur segir aksturinn venjulega taka um tuttugu mínútur, sem er til marks um seinagang umferðarinnar í morgun.

Þá lítur út fyrir að snjói meira á höfuðborgarsvæðinu í dag, að sögn Eiríks Arnar Jóhannessonar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Hann segir ofankomuna þó ekki verða samfellda líkt og í morgun en él gætu haldið áfram fram á nótt.

Gul viðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan sjö í kvöld. Þá fer að hvessa töluvert og snjóar áfram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×