Innlent

Fram­lengja neyðar­úr­ræði fyrir heimilis­lausar konur

Atli Ísleifsson skrifar
Neyðarúrræðið er á vegum Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytisins og er rekið með fjárframlagi frá félagsmálaráðuneytinu. Það er opið konum alls staðar að af landinu.
Neyðarúrræðið er á vegum Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytisins og er rekið með fjárframlagi frá félagsmálaráðuneytinu. Það er opið konum alls staðar að af landinu. Vísir/Vilhelm

Ákveðið hefur verið að framlengja neyðarúrræði á vegum Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytisins fyrir heimilislausar konur sem komið var á í apríl síðastliðinn vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Ekki var hægt að tryggja tveggja metra reglu í Konukoti og var því ákveðið að koma úrræðinu á fót.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarsviði borgarinnar. Tekin var ákvörðun um að tvískipta hópnum í Konukot og nýja úrræðið, þannig að rýmra yrði fyrir hverja konu.

Hópur heimilislausra kvenna sendi grein á fjölmiðla í morgun þar sem bent var á ástandið og að til stæði að loka úrræðinu. Bar greinin heitið „Það á enginn að vera heimilislaus“.

Í tilkynningu frá borginni segir að neyðarúrræðið sem hér um ræði sé til bráðabirgða. Til hafi staðið að loka því í sumar en tekin hafi verið ákvörðun um að framlengja það í ljósi þess að enn ríki óvissa vegna heimsfaraldursins og krafa um tveggja metra regluna enn í gildi.

„Neyðarúrræðið er rekið með fjárframlagi frá félagsmálaráðuneytinu og er opið konum alls staðar að af landinu. Velferðarsvið á nú í viðræðum við eiganda hússins um áframhaldandi rekstur til skamms tíma og hefur fengið vilyrði fyrir áframhaldandi fjárframlagi frá félagsmálaráðuneytinu,“ segir í tilkynningunni, en kostnaður vegna neyðarúrræðisins er 9 milljónir króna á mánuði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.