Innlent

Djúp lægð spillir færð og veldur snjóflóðahættu á norðurhelmingi landsins

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lægðinni fylgir mikil snjókoma á Vestfjörðum og á Norðurlandi og hætta getur skapast á snjóflóðum í veðrinu. Töluverð hætta er á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum og utanverðum Tröllaskaga.
Lægðinni fylgir mikil snjókoma á Vestfjörðum og á Norðurlandi og hætta getur skapast á snjóflóðum í veðrinu. Töluverð hætta er á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum og utanverðum Tröllaskaga. Vísir/Vilhelm

Djúp lægð gengur yfir landið í dag sem spillir færð og veldur snjóflóðahættu. Gul veðurviðvörun hefur verið virkjuð fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra og Norðurland eystra.

Á Vestfjörðum er víða ýmist þæfingsfærð eða þungfært og stórhríð. Ófært er á Þröskuldum, Steingrímsfjarðarheiði og Klettshálsi og á Norðurlandi hefur veginum um Þverárfjall verið lokað fyrir umferð og það sama á við um Víkurskarð.

Á Vestfjörðum og Breiðafirði er spáð norðan hvassviðri eða stormi 15-23 m/s á Ströndum og Norðurlandi vestra og eystra þrettán til tuttugu metrum á sekúndu. Á Norðurlandi eystra er útlit fyrir norðan strekking 13-18 m/s með snjókomu eða skafrenningi og slæmu skyggni, einkum á Eyjafjarðarsvæðinu.

Að neðan má sjá myndband sem Guðmundur Gauti Sveinsson tók á Siglufirði í dag.

„Það er lægð sem er að koma inn á landið með norðanstreng og snjókomu. Hríðarveður víða norðan til á landinu og snjóar nú talsvert með þessu. Færð orðin ábyggilega víða erfið á Norðurlandi og á Vestfjörðum. Það er frekar að hvessa á Norðvesturlandi, sérstaklega, og má reikna með hvassviðri og stormi staðbundnum og að verði mjög blind og slæmt skyggni. Þetta gengur ekkert almennilega niður fyrr en í nótt,“ segir Hrafn Guðmundsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Lægðinni fylgir mikil snjókoma á Vestfjörðum og á Norðurlandi og hætta getur skapast á snjóflóðum í veðrinu. Töluverð hætta er á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum og utanverðum Tröllaskaga.

Búið er að loka Sigulfjarðarvegi, veginum um Ólafsfjarðarmúla og Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu.

Mikill Sjór gengur yfir eyrina og höfnina á Sauðárkróki en Strandvegi hefur verið lokað fyrir umferð þar til aðstæður breytast.

Sjá nánar: Strandvegi á Sauðárkróki lokað vegna sjógangs


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×