Innlent

Gríðarlegir blossar yfir borginni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gríðarlegur blossi myndaðist sunnan af Grafarholti í morgun.
Gríðarlegur blossi myndaðist sunnan af Grafarholti í morgun. Hjörvar Ingi Haraldsson

Íbúar í Grafarholti og Úlfarsárdal urðu margir hverjir varir við gríðarmikla blossa sem bárust úr suðri á níunda tímanum í morgun. Eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan gengu þeir í bylgjum og lýstu upp himininn.

„Þetta er alveg magnað augnablik sem þau hafa náð þarna,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, þegar henni voru sýndar myndir af blossunum í morgun.

Hún segir að þá megi að öllum líkindum rekja til viðgerða á Korpulínu. Línan datt út í morgun og reyndu starfsmenn Landsnets að spennusetja línuna og segist Steinunn áætla að blossana megi rekja til þessarar spennusetningar. Hún hafi hins vegar ekki tekist og er Korpulína því ennþá úti.

Steinunn segir hins vegar að búið sé að finna bilunina og að viðgerð sé hafin. Þrátt fyrir að línan hafi dottið út hafi því ekki fylgt neitt rafmagnsleysi. Að sama skapi voru starfsmenn Landsnets ekki í neinni hættu þó svo að blossarnir hafi verið miklir, eins og sjá má hér að neðan.

Fréttastofan greinir frá öllum nýjustu vendingum í rauntíma í Óveðursvaktinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×