Innlent

Hundruð jarðskjálfta mældust við Grindavík í liðinni viku

Birgir Olgeirsson skrifar
Grindavík með fjallið Þorbjörn í baksýn.
Grindavík með fjallið Þorbjörn í baksýn. Vísir/Arnar

Um fjögur hundruð jarðskjálftar mældust norðan við Grindavík í síðustu viku. Fjöldinn er svipaður og hefur verið en virknin er þó minni en þegar hún var hvað mest í lok janúar. Landið heldur áfram að rísa og stendur risið í fimm sentímetrum.

Í gær mældust um þrjátíu skjálftar í kringum Þorbjörn, norðan við Grindavík. Það sem af er degi hafa þeir verið fimmtán talsins. Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að skjálfti upp á 3,6 hafi mælst á þriðjudag og að íbúar í Grindavík finni fyrir slíkum skjálftum.

Stærsti skjálftinn við Grindavík í gær var upp á 2,3 en Sigrúður segir að stærri skjálftar hafi mælst utan við Reykjanestána, allt að 2,8 til 2,9 að stærð.

Landrisið við Þorbjörn heldur áfram og segir Sigþrúður það nú ná fimm sentímetrum. Það hefur lítið breyst að undanförnu.

„Þetta er svona á svipuðu róli. Þetta fer ekkert vaxandi en heldur ekkert sjáanlegt minnkandi,“ segir hún.

Búið er að bæta við tveimur nýjum jarðskjálftamælum á svæðið, gasmælingar verða gerðar reglulega og telja vísindamenn að vakta þurfi svæðið áfram vegna jarðvirkninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×