Innlent

And­lát á dvalar­heimili til rann­sóknar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli.
Frá dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli. VÍSIR/VILHELM

Andlát karlmanns á tíræðisaldri á Kirkjuhvoli, hjúkrunar- og dvalarheimili aldraðra á Hvolsvelli, um miðjan janúar er nú til rannsóknar hjá Landlæknisembættinu. Fréttablaðið greinir frá. Samkvæmt heimildum blaðsins er talið að maðurinn hafi slasast illa þegar fataskápur féll á er hann reyndi að reisa sig á fætur inni á herbergi sínu. Hann hafi svo látist af sárum sínum. 

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður Landlæknis, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að andlát mannsins sé til rannsóknar hjá embættinu. Farið verði yfir þau gögn sem liggi fyrir í málinu og óskað eftir frekari upplýsingum frá stjórnendum dvalarheimilisins ef þörf krefur.

Heimildir Fréttablaðsins herma að ámælisvert sé talið að fataskápurinn hafi ekki verið tryggður með festingum, auk þess sem hann hafi verið á hjólum.

Rekstur Kirkjuhvols hófst árið 1985 og er að mestu í höndum sveitarfélagsins Rangárþings eystra, að því er fram kemur á heimasíðu dvalarheimilisins. Heimilismenn eru þrjátíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×