Innlent

Íslendingur lést í fallhlífarstökki í Taílandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stefan Eiríksson Andersson var reyndur fallhlífarstökkvari.
Stefan Eiríksson Andersson var reyndur fallhlífarstökkvari. Vísir

Þrítugur karlmaður sem á danska móður og íslenskan föður fórst í fallhlífarstökki í Taílandi síðastliðinn laugardag. Stefan Eiríksson Andersen hafði töluverða reynslu af fallhlífarstökki en í umfjöllun erlendra miðla kemur fram að fallhlíf hans hafi ekki opnast nema að hluta. Mbl.is greindi fyrst frá hér á landi.

Stefan hét Stefan Islændinge Andersen á Facebook og vísaði þannig til tengsla sinna við Ísland. Hann var uppalinn í Danmörku og bjó líkt og fleiri fjölskyldumeðlimir í bænum Kalundborg á Sjálandi.

Af Facebook-síðu Stefans má ráða að ferðalag hans hafi hafist þann 27. desember þegar hann flaug frá Danmörku til Kína. Þann 26. janúar flaug hann svo til Taílands.

Stefan fannst meðvitundarlaus í nágrenni flugvallar í Si Racha héraði í Taílandi. Eftir að skyndihjálp hafði verið reynd var hann fluttur á sjúkrahús. Var hann úrskurðaður látinn á staðnum.

Stefan var þekktur í samfélagi fallhlífastökkvara en hafði ekki verið virkur í félagi þeirra undanfarin ár að sögn stjórnarmanns í félaginu.

Í frétt Sjællandske Nyheder kemur fram að slysið sé til rannsóknar hjá yfirvöldum í Taílandi. Si Racha er um 120 kílómetra suðaustur af Bangkok, höfuðborg Taílands. Samkvæmt miðlum í Taílandi voru starfsmenn fyrirtækisins sem sá um fallhlífastökkið yfirheyrðir eftir slysið. Að þeirra sögn var ekkert að fallhlífinni áður en farið var um borð í flugvélina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×