Innlent

Gæti orðið sólar­hringa­bið eftir því að komast á á­fanga­stað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Upplýsingafulltrúi Isavia gerði ekki ráð fyrir örtröð á flugvellinum nú líkt og fyrr í mánuðinum þegar óveður olli miklum röskunum á flugi. Í þetta skiptið væru farþegar upplýstir með góðum fyrirvara.
Upplýsingafulltrúi Isavia gerði ekki ráð fyrir örtröð á flugvellinum nú líkt og fyrr í mánuðinum þegar óveður olli miklum röskunum á flugi. Í þetta skiptið væru farþegar upplýstir með góðum fyrirvara. Vísir/Vilhelm

Búið er að aflýsa nær öllu millilandaflugi um Keflavíkurflugvöll í dag vegna veðurs. Icelandair hefur aflýst öllu flugi sínu, sem og bróðurpartur erlendu flugfélaganna. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair gætu sumir farþegar þurft að bíða í nokkra sólarhringa eftir því að komast í flug, þó að reynt sé eftir fremsta megni að koma öllum á áfangastað eins fljótt og auðið er.

Slæmu veðri er spáð um mestallt landið í dag. Suðvestan hvassviðri eða stormur með éljum verður viðvarandi meira og minna þangað til í nótt. Mjög blint verður í hryðjunum, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar, og gular viðvaranir eru í gildi alls staðar nema austanlands – og appelsínugul viðvörun á Vestfjörðum.

Ekki búist við örtröð í þetta skiptið

Mikil röskun er á samgöngum vegna stormsins í dag. Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia segir í samtali við Vísi að nær öllum ferðum til og frá Keflavíkurflugvelli hafi verið aflýst.

Guðjón segir þó að einhverjum ferðum um Keflavíkurflugvöll hafi aðeins verið seinkað en farþegar eru beðnir um að fylgjast vel með flugáætlunum á vef Isavia, þar sem þær eru uppfærðar í rauntíma. Samkvæmt upplýsingum á vef Air Iceland Connect má jafnframt gera ráð fyrir að innanlandsflug liggi að mestu niðri í dag en þegar þetta er ritað hefur engin vél farið í loftið það sem af er morgni og næstu upplýsinga að vænta klukkan 13:30.

Inntur eftir því hvort búast megi við örtröð í flugstöðinni í Keflavík líkt og í óveðrinu sem gekk yfir landið fyrr í janúar, þegar mörgþúsund manns voru fastir á vellinum vegna röskunar á flugi, segir Guðjón að aðstæður nú séu öðruvísi.

„Þar kom veðrið aftan að okkur og flugrekendum. Það sem er öðruvísi núna er að þessar spár hafa legið fyrir og flugfélögin hafa tekið ákvarðanir með góðum fyrirvara varðandi það að aflýsa eða breyta ferðum. Og flugfarþegar hafa verið upplýstir um þetta.“

Röskun á flugi Icelandair í dag mun hafa áhrif á ríflega 3000 farþega.Vísir/Vilhelm

Ný flug og tilfærslur

Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, forstöðumaður þjónustu og upplifunar hjá Icelandair, áréttar í samtali við Vísi að öllu flugi Icelandair í dag hafi verið aflýst. Í gær tilkynnti flugfélagið að 24 ferðum til og frá Evrópu hefði verið aflýst og öðrum seinkað.

Nú hefur hins vegar öllum Evrópuflugum, sem og ferðum til og frá Bandaríkjanna og Kanada seinni partinn, verið aflýst.

Ingibjörg segir Icelandair nú vera að gera allar mögulegar ráðstafanir til að koma farþegum á áfangastað eins fljótt og auðið er. Ljóst er að röskunin muni hafa áhrif á nokkur þúsund farþega.

„Við erum núna að vinna í því að setja upp ný flug. Meðal annars setjum við upp flug frá Evrópu á morgun, við köllum þetta „rescue“-flug, það er frá Amsterdam, París og London Gatwick,“ segir Ingibjörg.

Þá geti verið að farþegar þurfi að bíða í einhverja sólarhringa eftir að komast á áfangastað. Slíkar tafir séu óhjákvæmilegar þegar um svo umfangsmikla röskun á flugi sé að ræða.

„Við erum búin að bjóða farþegum að færa sig á önnur flug, að breyta um dagsetningar, og mörghundruð manns hafa þegið það og hafa annað hvort flýtt brottför sinni eða seinkað henni. En staðan getur breyst. Við erum líka með farþega sem koma til dæmis frá Bandaríkjunum og yfir til Evrópu, við reynum að setja þá yfir á önnur flugfélög og þá opnast í vélunum okkar. En þar sem þetta er um svo rosalegan fjölda að ræða þá getur það alveg gerst að einhverjir þurfa að ferðast einum til tveimur dögum seinna, því miður,“ segir Ingibjörg.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×