Innlent

Vetrarfærð í flestum landshlutum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vindur er 15-25 m/s og hvassast um landið norðvestanvert. Austantil á landinu er léttskýjað og éljagangur.
Vindur er 15-25 m/s og hvassast um landið norðvestanvert. Austantil á landinu er léttskýjað og éljagangur. Vegagerðin

Vetrarfærð er í flestum hlutum landsins og er slæmt ferðaveður um vestan- og norðvestanvert landið. Vindur er 15-25 m/s og hvassast um landið norðvestanvert. Austantil á landinu er léttskýjað og éljagangur.

Draga mun úr vindi í nótt, samkvæmt Veðurstofu Íslands, og er spáð breytilegri átt, 3-10 m/s á morgun. Létta á til þegar líður á morgundaginn.

Undir annað kvöld á þó að bæta í vind aftur og snjóa.

Snjóþekja og stórhríð er á Hellisheiði og er varað við dimmum éljum fyrri hluta dagsins. Þá segir Vegagerðin að mögulegt væri að heiðinni og Þrengslum yrði lokað með stuttum fyrirvara. Þröskuldar eru ófærir og það sama gildir um Klettsháls og Hálfdán. Óvissustig er á Súðavíkurhlíð þar sem veginum hefur verið lokað.

Þá er slæmt ferðaveður á milli Akureyrar og Húsavíkur og Akureyrar og Mývatns. Mjög hvasst er á svæðinu og blindhríð.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Suðvestan 5-13 m/s og dálítil él, en þurrt austanlands. Frost 0 til 5 stig. Seinnipartinn gengur í austan 10-18 með snjókomu og síðar slyddu á sunnanverðu landinu og hægt hlýnandi veðri.

Á laugardag:

Hvöss austlæg átt og snjókoma, en slydda eða rigning sunnantil. Snýst í hægari suðlæga átt eftir hádegi. Frost 0 til 3 stig, en hiti að 4 stigum við suðurströndina.

Á sunnudag:

Breytileg átt, víða 5-10 m/s, og dálítil snjókoma eða él. Frost 0 til 5 stig.

Á mánudag:

Suðaustlæg átt, bjartviðri en stöku él. Frost um land allt. Hvessir af austri syðst um kvöldið.

Á þriðjudag:

Stíf austlæg átt og él, en úrkomulítið vestantil. Kalt í veðri.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir hæga norðaustlæga átt og bjartviðri, en stöku él við norðurströndina. Frost um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×