Innlent

Birgitta þakkar lögreglunni fyrir að upplýsa hvarf föður hennar

Kjartan Kjartansson skrifar
Birgitta Jónsdóttir, fv. þingmaður, greinir frá því á Facebook að kennsl hafi verið borin á líkamsleifar föður hennar. Myndin er úr safni.
Birgitta Jónsdóttir, fv. þingmaður, greinir frá því á Facebook að kennsl hafi verið borin á líkamsleifar föður hennar. Myndin er úr safni. Vísir/Stöð 2

Maður sem hvarf fyrir þrjátíu árum og kennsl voru borin á í dag var faðir Birgittu Jónsdóttur, fyrrverandi þingmanns Pírata. Birgitta þakkar lögreglunni á Suðurlandi fyrir að hafa loks skorið úr um afdrif föður hennar í færslu sem hún birtir á Facebook-síðu sinni í kvöld.

Lögreglan á Suðurlandi tilkynnti í dag að tekist hefði að bera kennsl á höfuðkúpu manns sem var talinn hafa fallið í Sogið á aðfangadag árið 1987. Hluti höfuðkúpunnar fannst við Ölfusá árið 1994. DNA-sýni úr kúpunni sem var sent til rannsóknar í Svíþjóð leiddi í ljós að hún var úr Jóni Ólafssyni, föður Birgittu.

Í Facebook-færslunni skrifar Birgitta að faðir hennar hafi nú loks fundið frið.

„Við systkinin erum óendanlega þakklát yfirlögregluþjóni Suðurlands Oddi Árnasyni fyrir að fylgja þessu máli eftir alla leið svo að loks sé hægt að jarðsetja pabba og vera fullviss um afdrif hans,“ skrifar hún.

Ekki reyndist hægt að bera kennsl á höfuðkúpuna með tækni þess tíma þegar hún fannst árið 1994. Ákveðið var að reyna aftur í lok mars í fyrra og var þá tekið sýni úr höfuðkúpunni til aldursgreiningar. Niðurstaðan barst í haust um að beinin væru að öllum líkindum frá árunum um og eftir 1970.

Þá var sýnið sent til DNA-rannsóknar í Svíþjóð og barst niðurstaða úr henni í þessum mánuði. Í tilkynningu lögreglu kom fram að börn Jóns verði afhentar jarðneskar leifar föður þeirra á næstu dögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×