Innlent

Kræsingar, áður Gæðakokkar, fengu 112 milljónir frá MAST

Samúel Karl Ólason skrifar
Fyrirtækið lagði fram kröfu gegn ríkinu eftir að Hæstiréttur Íslands staðfesti skaðabótaskyldu MAST í fyrra.
Fyrirtækið lagði fram kröfu gegn ríkinu eftir að Hæstiréttur Íslands staðfesti skaðabótaskyldu MAST í fyrra. Vísir/Eiður

Fyrirtækið Kræsingar í Borgarnesi, sem áður hét Gæðakokkar, hefur fengið 112 milljónir króna í bætur frá Matvælastofnun vegna nautabökumálsins svokallaða. Fyrirtækið lagði fram kröfu gegn ríkinu eftir að Hæstiréttur Íslands staðfesti skaðabótaskyldu MAST í fyrra. Það var vegna tilkynningar um að fyrirtækið hefði framleitt tvær vörur sem áttu að vera úr nautakjöti en innihéldu ekki kjöt.

MAST rannsakaði kjötinnihald 16 matvara eftir að umfangsmikið hrossakjötssvindl uppgötvaðist í Evrópu.

Fyrirtækið var í kjölfarið ákært fyrir brot á lögum um matvæli og reglugerð um merkingar á matvælum. Það var þó sýknað þar sem ekki þótti sannað að ásetningur hefði legið að baki brotinu eða að umrædd kjötbaka hefði verið óhappatilvik.

Sjá einnig: Kjötlausar kjötbökur bökuðu MAST skaðabótaskyldu

Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Magnús Níelsson, eigandi Kræsinga, að bæturnar hafi borist fyrir jól og hann hafi gert upp við alla þá birgja sem hafi beðið með kröfur sínar.

Hann segir enn fremur að deilt hafi verið um upphæð bótanna frá því skaðabótaskylda MAST var staðfest af Hæstarétti. Að endingu hafi stofnunin boðið 69 milljónir og Magnús hafi þáð það. Með vöxtum og kostnaði varð upphæðin 112 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×