Innlent

Lægstu leik­skóla­gjöldin í Reykja­vík en þau hæstu í Garða­bæ

Atli Ísleifsson skrifar
Almenn leikskólagjöld fyrir 8 tíma vistun með fæði eru hæst í Garðabæ en lægst í Reykjavík og munar þar tæplega 14.000 krónum á mánuði eða 53%.
Almenn leikskólagjöld fyrir 8 tíma vistun með fæði eru hæst í Garðabæ en lægst í Reykjavík og munar þar tæplega 14.000 krónum á mánuði eða 53%. vísir/vilhelm

Almenn leikskólagjöld fyrir átta tíma vistun með fæði eru hæst í Garðabæ en lægst í Reykjavík. Munar þar tæplega 14 þúsund krónum á mánuði eða 53 prósent.

Þetta kemur fram í úttekt Verðlagseftirlits ASÍ á breytingum á leikskólagjöldum hjá sextán stærstu sveitarfélögum landsins. Kemur í ljós að gjöldin hækka milli ára hjá öllum sveitarfélögum nema Mosfellsbæ og Vestmannaeyjum.

„Leikskólagjöldin hækka mest á Seltjarnarnesi um tæplega 7% fyrir 8 tíma vistun með fæði og næst mest í Garðabæ um rúm 3%. Leikskólagjöldin lækka um 3,7% í Mosfellsbæ en standa í stað milli ára í Vestmannaeyjum.

Almenn leikskólagjöld fyrir 8 tíma vistun með fæði eru hæst í Garðabæ en lægst í Reykjavík og munar þar tæplega 14.000 krónum á mánuði eða 53% . Sömu gjöld fyrir forgangshópa eru lægst í Reykjavík og hæst í Sveitarfélaginu Árborg en þar nemur munurinn ríflega 3.300 kr. á mánuði eða 12,6%. Gjöld fyrir níu tíma vistun á leikskóla er hinsvegar hæst hjá Fljótsdalshéraði en lægst í Mosfellsbæ,“ segir í tilkynningu á vef ASÍ.

Hækkanir mestar á Seltjarnarnesi

Í úttektinni kemur í ljós að oftast séu hækkanir á leikskólagjöldum milli ára um eða undir 2,5 prósent og eru hækkanir ekki umfram það hjá fjórtán sveitarfélögum af þeim sextán sem skoðuð eru.

ASÍ

„Seltjarnarnes sker sig úr, en þar hækkar 8 tíma vistun með fæði um 6,9% sem má rekja til 10% hækkunar á tímagjaldi. Í krónum talið hækka 8 tímar með fæði á Seltjarnarnesi því um 1.872 kr. á mánuði eða 20.592 kr. á ári sé miðað við 11 mánaða vistun. Á sama tíma hækkar níundi tíminn um 87,4% eða úr 3.505 kr. í 6.569 krónur og þá hækkar 9 tíma vistun á leikskóla um 16,1% milli ára. Næst mest hækkar 8 tíma vistun með fæði í Garðabæ um 3% en hækkunina má rekja til 2,5% hækkunar á tímagjaldi og 5,6% hækkunar á fæðisgjaldi.

8 tímar með fæði lækka um 3,7% milli ára í Mosfellsbæ sem er tilkomið vegna 5% lækkunar á tímagjaldi. Leikskólagjöldin standa í stað millli ára í Vestmannaeyjum en 8 tíma vistun með fæði hækkar minnst í Hafnarfirði um 0,64% sem má rekja til 5% hækkunar á fæðisgjaldi.“

Nánar má lesa um úttekt Verðlagseftirlitsins á vef ASÍ.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.