Innlent

Losun frá flugi stórminnkaði eftir fall flugfélaganna

Kjartan Kjartansson skrifar
WOW Air fór í þrot í lok mars á síðasta ári. Primera air fór á hausinn haustið 2018.
WOW Air fór í þrot í lok mars á síðasta ári. Primera air fór á hausinn haustið 2018. Vísir/vilhelm

Áætlað er að losun gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum á Íslandi hafi dregist saman um 44% á milli áranna 2018 og 2019. Hagstofan rekur samdráttinn til fækkunar flugfélaga í millilandaflugi en Wow air og Primera air lögðu bæði upp laupana á skömmum tíma.

Í bráðabirgðaútreikningum Hagstofunnar á losun koltvísýringsígilda er aðeins tekið tillit til reksturs íslenskra félaga en ekki erlendra félaga sem hafa viðkomu á Íslandi. Losunin hafði aukist um 5% á milli áranna 2017 og 2018.

Losunin minnkaði úr tæplega 2,8 milljónum tonnum árið 2018 í tæpar 1,6 milljónir tonna í fyrra. Hún fellur ekki undir skuldbindingar Íslands vegna Parísarsamkomulagsins.

Á sama tímabili stóð losun frá stóriðju svo gott sem í stað. Losunin hefur numið rúmum 1,8 milljónum tonna af koltvísýringsígildum undanfarin þrjú ár samkvæmt tölum Hagstofunnar.  Minni framleiðsla og bilanir í verksmiðjum eru sagðar ástæða þess að losun frá málmframleiðslu lækkaði um tæp 110.000 tonn á milli 2018 og 2019. Aukning í losun frá kísilverum vó upp á móti lækkuninni frá málmframleiðslunni.

Stóriðjulosun fellur heldur ekki undir alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum heldur samevrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir.

Sá fyrirvari er settur við útreikninga Hagstofunnar að losunartölurnar séu bráðabirgðatölur. Þær verði endurskoðaðar þegar nákvæmari göng liggja fyrir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.