Innlent

Engar mark­verðar breytingar við Þor­björn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Grindavík en þar hefur verið boðað til íbúafundar í dag vegna landrissins við Þorbjörn.
Frá Grindavík en þar hefur verið boðað til íbúafundar í dag vegna landrissins við Þorbjörn. vísir/vilhelm

Engar markverðar breytingar hafa orðið í nótt við fjallið Þorbjörn á Reykjanesi samkvæmt upplýsingum frá náttúruvárvöktun Veðurstofu Íslands.

Óvissustig almannavarna var virkjað síðdegis í gær óvenjulegs landriss rétt vestan við fjallið.

Landrisið er óvenjuhratt eða um þrír til fjórir millimetrar á dag. Í gær var það því í heildina orðið tveir sentimetrar. Landrisið er líklegast vísbending um kvikusöfnun á nokkurra metra dýpi.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hafa verið tíu skjálftar í nágrenninu síðan í gærkvöldi, sá stærsti mældist 2,1 og varð klukkan 23 í gær.

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagði í fréttum Stöðvar 2 að versta sviðsmynd vísindamanna á svæðinu nú geri ráð fyrir hraungosi sem yrði þó minna en gosið í Holuhrauni 2014.

Hann sagði þó líklegt að landrisið hætti áður en eitthvað meira gerist ef um er að ræða landris vegna kvikuinnskots. Það gæti þó myndast gangur sem gæti valdið skemmdum á vegum, lögnum og öðrum innviðum.

Þorbjörn er ekki langt frá Grindavík. Þar hefur verið boðað til íbúafundar klukkan 16 í dag vegna málsins. Fundurinn mun fara fram í íþróttahúsi bæjarins.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.