Innlent

Vilja meira en milljón í bætur vegna vél­sleða­ferðar Mounta­ineers of Iceland

Sylvía Hall skrifar
Frá aðstæðum uppi á Langjökli við björgunina.
Frá aðstæðum uppi á Langjökli við björgunina. Landsbjörg

Tveir ferðamenn sem fóru í vélsleðaferð með Mountaineers of Iceland á þriðjudag munu leggja fram bótakröfu sem áætlað er að muni nema yfir einni milljón króna á mann. Þetta staðfestir Helgi Þorsteinsson lögmaður í samtali við mbl.is.

39 ferðamönnum var bjargað af Langjökli aðfaranótt miðvikudags eftir vélsleðaferð með fyrirtækinu. Fyrirtækið fer í daglegar vélsleðaferðir þar sem farið er frá Gullfossi upp á jökulinn í klukkutímalanga vélsleðaferð. Hópurinn sem lagði af stað í ferðina var á öllum aldri og var sex ára barn á meðal þeirra sem voru í umræddri ferð.

Sjá einnig: Rob hafði ekki hugmynd um slæma veðurspá á leiðinni á Langjökul

Fólkið þurfti að grafa sig í fönn við bíla fyrirtækisins en einn bíll fyrirtækisins bilaði. Björgunarsveitarfólk var ekki komið á staðinn fyrr en tólf tímum síðar og fleiri klukkutíma tók að flytja fólkið í fjöldahjálparstöð Rauða krossins við Gullfoss.

Lögmaður ferðamannanna vill ekki gefa upp nöfn þeirra en að hann segir málið vera á frumstigi. Ferðamennirnir hafi skrifað opið bréf þar sem þeir lýsa atvikum og segir Helgi að um sé að ræða gáleysi sem geti leitt til bótaskyldu fyrirtækisins.

Lögregla rannsakar nú málið en fleiri ferðamenn hyggjast leita réttar síns vegna þess. Nokkrir ferðamenn hafa leitað til Lilju Margrétar Olsen, lögmanns hjá Kötlu lögmönnum, og sagði Lilja í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 í vikunni að fyrirtækið bæri ábyrgð á því tjóni sem fólkið hefði orðið fyrir. Of snemmt væri þó að segja til um hvort einhverjir myndu höfða mál. 


Tengdar fréttir

Undrandi á ákvörðun Mountaineers of Iceland

Björgunarsveitarmaður sem var hluti af fjölmennu útkalli á Langjökul í nótt þar sem 39 ferðamenn lentu í háska í vélsleðaferð á vegum Mountaineers Iceland undrast að farið hafi verið í ferðina í ljósi slæmrar veðurspár. Aðstæður hafi verið mjög krefjandi enda veðrið alveg snarbrjálað.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.