Innlent

Daginn búið að lengja um sextíu mínútur í Reykjavík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Álftir eru byrjaðar tilhugalífið en þessi mynd var tekin á Árbæjarstíflu í Reykjavík laust fyrir klukkan fjögur í gær. Sólin var þá komin á bak við Breiðholtshvarf.
Álftir eru byrjaðar tilhugalífið en þessi mynd var tekin á Árbæjarstíflu í Reykjavík laust fyrir klukkan fjögur í gær. Sólin var þá komin á bak við Breiðholtshvarf. Mynd/KMU.

Þremur vikum frá vetrarsólstöðum gætu landsmenn verið farnir að skynja lengingu birtutímans, - og kannski einhverjir farnir að láta sig dreyma um vorið, nú þegar aðeins rúmir þrír mánuðir eru í sumardaginn fyrsta.

Þannig hefur daginn núna lengt um 60 mínútur í Reykjavík frá vetrarsólstöðum 22. desember. Lengingin er meiri síðdegis, eða 40 mínútur, en 20 mínútur að morgni.

Sólris í borginni í dag er klukkan 11.02 og sólsetur klukkan 16.09 og telst lengd dagsins því vera 5 stundir og 7 mínútur. Sólarhæð fer í 4,4 gráður yfir sjóndeildarhring á hádegi, sem er klukkan 13.35 í Reykjavík, en upplýsingarnar eru fengnar af tímatalsvefnum timeanddate.com.

Horft til norðurs frá Breiðholtshvarfi yfir Árbæjarsafn og Árbæjarlón í gær. Fjær eru Akrafjall og Esja.Mynd/KMU.

Talsverðu munar á byggðum landsins eftir hnattstöðu þeirra. Þannig kemur sólin upp á Höfn í Hornafirði klukkan 10.37 en á Ísafirði telst sólris vera klukkan 11.36, um klukkustund síðar. Þar hindra þó fjöll Ísfirðinga í að sjá sólina frá heimilum sínum á þeirri stundu. Lengd dagsins telst vera 5 stundir og 4 mínútur á Höfn en 4 stundir og 8 mínútur á Ísafirði. Lenging dagsins er hins vegar orðin 85 mínútur á Ísafirði en 60 mínútur á Höfn.

Á Ísafirði er sú venja að fagna hækkun sólar með sólarkaffi þann 25. janúar þegar sólin sést á ný á Sólgötu við Eyrartún, þar sem Ísafjarðarkirkja er, en þá hefur sólin verið í hvarfi á bak við fjöllin í tvo mánuði.Mynd/Kirkjukort.net

Íbúar Vestmannaeyja, syðsta bæjar landsins, njóta lengsta sólargangs allra landsmanna í dag, eða í 5 stundir og 24 mínútur, sem er 54 mínútna lenging frá stysta degi ársins. Þar er sólris klukkan 10.47 en sólsetur klukkan 16.11, tveimur mínútum seinna en í Reykjavík, og þar nær sólarhæð 5 gráðum á hádegi klukkan 13.29. 

Á sama hátt njóta íbúar nyrstu byggðarinnar, Grímseyjar, stysta sólargangs, eða í 3 stundir og 50 mínútur í dag. Þar er lengingin frá vetrarsólstöðum hins vegar orðin mest eða 98 mínútur. Lengingin er einnig hröðust þar, eða yfir 7 mínútur milli daga næstu vikuna, meðan lenging dagsins í Vestmannaeyjum nemur um 5 mínútum milli daga.

Frá Akureyri. Þar hefur daginn lengt um 77 mínútur frá vetrarsólstöðum.Vísir/Tryggvi

Á Akureyri, höfuðstað Norðurlands, er sólris í dag klukkan 11.09 en sólsetur klukkan 15.32, lengd dagsins því 4 stundir og 23 mínútur og lengingin 77 mínútur frá því sól var lægst á lofti. Þar nær sólin upp í 2,9 gráður á hádegi í dag, sem er klukkan 13.20 á Akureyri. 

Þótt ekki virðist langt á milli staða getur munað miklu á sólargangi. Þannig er sólris á Siglufirði klukkan 11.21 í dag, 12 mínútum seinna en á Akureyri, og á Siglufirði er sólsetur klukkan 15.26, 6 mínútum fyrr en á Akureyri. Þannig telst þessi dagur vera 4 stundir og 5 mínútur á Siglufirði, 18 mínútum styttri en á Akureyri. 

Það kemur eflaust mörgum á óvart hve miklu munar á hádegi eftir því hvort menn eru staddir austast eða vestast á landinu. Þannig er hádegi í Neskaupstað í dag klukkan 13.02 en á Patreksfirði klukkan 13.44.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.