Innlent

Lagði af stað frá Keflavík til Alicante en lenti í Valencia

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ferill flugvélarinnar frá Keflavík til Valencia sést hér. Valencia er svo rauðmerkt á kortinu og Alicante, upphaflegur áfangastaður, merktur með bláu.
Ferill flugvélarinnar frá Keflavík til Valencia sést hér. Valencia er svo rauðmerkt á kortinu og Alicante, upphaflegur áfangastaður, merktur með bláu. Skjáskot/Flightradar

Flugvél norska flugfélagsins Norwegian, sem lagði af stað til Alicante á Spáni frá Keflavíkurflugvelli á sjöunda tímanum, var lent í spænsku borginni Valencia nú skömmu fyrir klukkan ellefu að íslenskum tíma. Flugvellinum í Alicante var lokað í dag vegna elds sem þar kom upp og verður ekki starfhæfur fyrr en á morgun.

Samkvæmt upplýsingum á vef Isavia fór vélin frá Keflavíkurflugvelli klukkan 18:05 og var áfangastaður þá Alicante samkvæmt áætlun. Samkvæmt upplýsingum í hópi Íslendinga á Costa Blanca-svæðinu á Spáni var farþegum gert viðvart um breyttan áfangastað í kvöld en ætla má að nokkur fjöldi Íslendinga hafi verið um borð í vélinni.

Vél Norwegian lenti svo á flugvellinum í Valencia nú á ellefta tímanum, ef marka má feril vélarinnar á vefsíðunni Flightradar. Valencia er í um 160 kílómetra fjarlægð frá Alicante.

Flugvöllurinn í Alicante var rýmdur í morgun þegar eldur kviknaði í þaki flugstöðvarbyggingarinnar. Slökkviliðsmenn náðu að endingu tökum á eldinum og reykræstu. Flugvélum sem lenda áttu á vellinum hefur ýmist verið beint til Valencia eða Murcia, nærliggjandi borga.

Í frétt Independent um málið segir að upptök eldsins séu ekki kunn. Myndbönd á samfélagsmiðlum sýna reyk leggja frá flugvellinum og farþega bíða fyrir utan flugstöðvarbygginguna.

Fram kemur í tísti Aena, sem rekur tugi flugvalla á Spáni og þar á meðal völlinn á Alicante, að flugvöllurinn verði ekki kominn í gagnið að nýju fyrr en á hádegi á morgun, 16. janúar. Því er beint til farþega að koma ekki á völlinn heldur hafa samband við flugfélagið sem þeir hyggjast fljúga með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×