Innlent

Gular viðvaranir í kortunum um helgina

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gul viðvörun er í gildi fyrir allt landið á sunnudag eins og staðan er núna.
Gul viðvörun er í gildi fyrir allt landið á sunnudag eins og staðan er núna. Skjáskot/veðurstofan

Gul stormviðvörun virkjast klukkan tvö á morgun á Austfjörðum og skömmu síðar á Austfjörðum og Suðausturlandi. Búist er við norðvestan stormi, 18-23 metrum á sekúndu. Þá gengur kröftug lægð yfir landið á sunnudag.

Í öðrum landshlutum er útlit fyrir vestan fimm til þrettán metra á sekúndu á morgun. Þá verða víða dálítil él. Hiti á sunnan- og vestanverðu landinu verður um og yfir frostmarki en vægt frost annars staðar.

Á laugardag falla gulu viðvaranirnar úr gildi og kólnar. Þá verður vaxandi sunnanátt á laugardagskvöldið en aðfaranótt sunnudags mun rigna talsvert og hvessa mikið.

Gul stormviðvörun virkjast svo fyrir allt land á miðnætti á sunnudag. Búist er við sunnan stormi eða roki með mikilli rigningu. Á vef Veðurstofunnar segir að búast megi við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum.

„Mikil hálka getur myndast þar sem rignir á klakabunka eða þjappaðan snjó. Mikilvægt er að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón vegna rigningar og leysingavatns.“

Á vef Vegagerðarinnar segir að víðast hvar á landinu sé vetrarfærð en góðar aðstæður til ferðalaga, þó að hálku gæti víða. Þá var Flateyrarvegi, sem opnaður var undir eftirliti í dag, lokað klukkan tíu í kvöld af öryggisástæðum. Óvissustig er enn í gildi á svæðinu vegna snjóflóða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.