Innlent

Gular viðvaranir í kortunum um helgina

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gul viðvörun er í gildi fyrir allt landið á sunnudag eins og staðan er núna.
Gul viðvörun er í gildi fyrir allt landið á sunnudag eins og staðan er núna. Skjáskot/veðurstofan

Gul stormviðvörun virkjast klukkan tvö á morgun á Austfjörðum og skömmu síðar á Austfjörðum og Suðausturlandi. Búist er við norðvestan stormi, 18-23 metrum á sekúndu. Þá gengur kröftug lægð yfir landið á sunnudag.

Í öðrum landshlutum er útlit fyrir vestan fimm til þrettán metra á sekúndu á morgun. Þá verða víða dálítil él. Hiti á sunnan- og vestanverðu landinu verður um og yfir frostmarki en vægt frost annars staðar.

Á laugardag falla gulu viðvaranirnar úr gildi og kólnar. Þá verður vaxandi sunnanátt á laugardagskvöldið en aðfaranótt sunnudags mun rigna talsvert og hvessa mikið.

Gul stormviðvörun virkjast svo fyrir allt land á miðnætti á sunnudag. Búist er við sunnan stormi eða roki með mikilli rigningu. Á vef Veðurstofunnar segir að búast megi við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum.

„Mikil hálka getur myndast þar sem rignir á klakabunka eða þjappaðan snjó. Mikilvægt er að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón vegna rigningar og leysingavatns.“

Á vef Vegagerðarinnar segir að víðast hvar á landinu sé vetrarfærð en góðar aðstæður til ferðalaga, þó að hálku gæti víða. Þá var Flateyrarvegi, sem opnaður var undir eftirliti í dag, lokað klukkan tíu í kvöld af öryggisástæðum. Óvissustig er enn í gildi á svæðinu vegna snjóflóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×