Innlent

Flateyrarvegur opnaður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Flateyrarvegi í gær.
Frá Flateyrarvegi í gær. Vísir/jkj

Tekin hefur verið ákvörðun um að opna Flateyrarveg, eftir veðurofsa og hamfarir síðustu daga. Allir vegir milli þéttbýlisstaða á norðanverðum Vestfjörðum eru því opnir. Flateyrarvegur var opnaður tímabundið í gær en lokað aftur af öryggisástæðum.

Hálka er á þessum slóðum, rétt eins og á landinu öllu. Unnið er að mokstri á Djúpvegi og eru ökumenn varaðir við því að vegurinn er víða aðeins með eina akstursbreidd vegna snjóa.

Færð spilltist um Flateyrarveg eftir snjóflóðin á þriðjudag, en alls féllu þrjú flóð yfir veginn. Fyrir vikið voru Flateyringar innlyksa og voru vistir og mannskapur ferjuð til bæjarins með aðstoð þyrlu og varðskipsins Þórs.

Mokstur hófst þar í gær og gekk greiðlega, enda veðuraðstæður með besta móti. Notast var við eina stóra vél með hjólaskóflu til að ryðja veginn.

Ekki var hægt að notast við snjóblásara til að komast í gegnum snjóflóðin að sögn Guðmundar Björgvinssonar hjá Vegagerðinni þar sem grjót og ruðningur gæti hafa borist niður með flóðinu.


Tengdar fréttir

Flateyringar enn innlyksa

Flateyrarvegur er enn lokaður eftir snjóflóðin sem þar féllu á þriðjudag og íbúar Flateyrar því enn innlyksa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×