Innlent

Fjögur á gjörgæslu eftir bílslysið á Suðurlandsvegi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir með slasaða í Fossvogi eftir slysið á Suðurlandsvegi í dag.
Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir með slasaða í Fossvogi eftir slysið á Suðurlandsvegi í dag. Vísir

Fjórir erlendir ferðamenn eru nú á gjörgæslu Landspítalans eftir að hafa lent í hörðum árekstri tveggja bíla á Suðurlandsvegi við Háöldukvísl á Skeiðarársandi síðdegis í dag.

Níu ferðamenn frá Frakklandi og Suður-Kóreu voru í bílunum tveimur, jeppa og jeppling. Sjö voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar á slysadeild í Fossvogi. Fljótlega varð ljóst að fjórir væru alvarlega slasaðir, þar af þrjú börn, en hinir talsvert minna. Tveir ferðamannanna voru svo fluttir á spítala í sjúkrabíl.

Eins og áður segir liggja fjórir þeirra sem komu með þyrlunum nú á gjörgæslu. Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum segir að hinir þrír séu í rannsóknum og meðferð á bráðamóttöku. Þeir eru minna slasaðir.

Vel gekk að taka á móti ferðamönnunum, að sögn Jóns Magnúsar. Hann kveðst ekki vita hvað fólkið verði lengi á spítalanum en líklega verði það í eftirliti yfir nótt.

„Það skiptir sköpum að við höfum getað opnað þessi sjö viðbótarrými á efri hæð bráðamóttökunnar.“

Frá vettvangi slyssins í dag. Landhelgisgæslan

Hópslysaáætlun var virkjuð þegar tilkynning barst um slysið skömmu fyrir klukkan tvö í dag og Suðurlandsvegi lokað við slysstað. Opnað var fyrir umferð um veginn á ný um kvöldmatarleytið.

Tildrög slyssins eru enn ekki alveg ljós. Grímur Hergerisson settur lögreglustjóri á Suðurlandi sagði þó í samtali við Vísi snemma í kvöld að svo virðist sem annar bíllinn hafi farið yfir á öfugan vegarhelming og lent framan á hinum bílnum, sem kom úr gagnstæðri átt. Börnin sem slösuðust alvarlega í slysinu voru öll í öðrum bílnum.


Tengdar fréttir

Alvarlegt bílslys á Suðurlandsvegi

Viðbragðsaðilar á Suðurlandi eru nú á leið á vettvang alvarlegs bílslyss sem varð á Suðurlandsvegi á Skeiðarársandi rétt fyrir klukkan 14 í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.