Innlent

Alvarlegt bílslys á Suðurlandsvegi

Margrét Helga Erlingsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Slysið varð á Suðurlandsvegi við Háöldukvísl á Skeiðarársandi.
Slysið varð á Suðurlandsvegi við Háöldukvísl á Skeiðarársandi. Vísir/Vilhelm

Þrjú börn á aldrinum 5 til 10 ára eru alvarlega slösuð eftir árekstur jeppa og jepplings við Háöldukvísl á Skeiðarársandi á Suðurlandsvegi skömmu fyrir klukkan 14 í dag.

Þau voru flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann rétt fyrir klukkan 16 og mun þyrlan lenda í Fossvogi skömmu fyrir klukkan 17. Með börnunum í fylgd í þyrlunni var einstaklingur sem einnig lenti í slysinu en slapp án teljandi meiðsla.

Auk þess slasaðist einn fullorðinn einstaklingur alvarlega og tveir eru minna slasaðir. Þeir þrír fóru með annarri þyrlu gæslunnar á Landspítalann sem líka var kölluð út vegna slyssins eftir klukkan 16.

Alls voru níu manns í bílunum tveimur, allt erlendir ferðamenn. Tveir eru minna slasaðir og þrír sluppu án teljandi meiðsla.

Hópslysaáætlun vegna slyssins var virkjuð og veginum lokað. Að því er fram kemur í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi er hált og hvasst á vettvangi. Vegurinn er lokaður.

Með fyrri þyrlu Gæslunnar fóru tveir læknar að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, og með þeirri seinni greiningarteymi frá Landspítalnum auk tveggja bráðatækna frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru einnig kallaðar út eins og venja er þegar hópslysaáætlun er. Þá hefur samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð verið virkjuð sem og aðgerðastjórn á Suðurlandi.

Viðbúnaður er á Landspítalanum vegna slyssins sem er samkvæmt upplýsingum þaðan fullfær um að taka á móti hinum slösuðu. Þegar er hafinn undirbúningur þar og verða allir kallaðir til sem þurfa þykir.

Þá mun Rauði krossinn bjóða upp á sálrænan stuðning fyrir þá sem komu fyrst að slysinu. Það var rúta sem kom fyrst að og er fólkið sem var í henni á leiðinni á Kirkjubæjarklaustur þar sem þau munu hitta sjálfboðaliða RKÍ.

Fréttin var uppfærð klukkan 16:37.

Frá vettvangi slyssins í dag. Landhelgisgæslan


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.