Innlent

Fluttur á bráðadeild eftir flugeldaslys

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Drengurinn var meiddur á hendi og skrámaður í andliti eftir flugeldann.
Drengurinn var meiddur á hendi og skrámaður í andliti eftir flugeldann. vísir/vilhelm

16 ára drengur var fluttur á bráðamóttöku í gærkvöldi eftir að tilkynning barst lögreglu klukkan 22:40 um flugeldaslys í Laugarneshverfi í Reykjavík. Var drengurinn meiddur á hendi og skrámaður í andliti og fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild. Frá þessu er greint í dagbók lögreglu.

Þá voru nokkur umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi, ekki síst vegna þess að það byrjaði að snjóa og snjóaði í alla nótt.

Þannig var tilkynnt um umferðaróhapp á Reykjanesbraut við Kaldárselsveg um sexleytið. Ökumaðurinn missti stjórn á bílnum vegna hálku og snjókomu og ók á ljósastaur. Engin meiðsl urðu en bíllinn er óökufær.

Upp úr klukkan 23 var síðan tilkynnt um umferðaróhapp á Reykjanesbraut í Kópavogi. Bíll hafði stöðvað þar vegna umferðaróhapps og fékk annan bíl aftan á sig. Fjórar bifreið skemmdust og einhver voru meiðslin en ekki er vitað nánar um þau.

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp á Hafnarfjarðarvegi um klukkan tvö í nótt. Ökumaðurinn missti stjórn á bíl sínum í miklum þæfingi og hafnaði utan vegar á grindverki og ljósastaur. Ökumaðurinn slasaðist ekki en bifreiðin var fjarlægð af vettvangi með Króki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×