Innlent

Horfði á kranann falla á heimilið rétt eftir að hann hringdi í verktakann

Eiður Þór Árnason skrifar
Víða hefur verið hvasst í dag.
Víða hefur verið hvasst í dag. Vísir/Frikki

Betur fór en á horfðist þegar stór byggingakrani féll á einbýlishús í Urriðaholti í Garðabæ um hádegi í dag. Magnús Þórðarson, sem býr í húsinu, var nýbúinn að láta byggingarverktakann vita af áhyggjum sínum þegar kraninn lenti á húsinu.

Engin slys urðu á fólki en húsið og bíll fjölskyldunnar hefur orðið fyrir töluverðum skemmdum. Mbl.is greindi fyrst frá.

„Ég var hérna í bílnum undir krananum þegar þetta gerðist og horfði á hann fara yfir.“

Magnús segir að mikil læti hafi heyrst þegar kraninn féll og að krakkarnir hans þrír sem voru staddir heima ásamt móður sinni hafi verið mjög óttaslegnir.

„Ég sá að það var hreyfing á honum, þannig að ég hringdi í verktakann og um leið og ég skellti á þá fór hann niður.“

Hann telur að um mikið tjón sé um að ræða fyrir fjölskylduna þar sem þak hússins sé að öllum líkindum ónýtt. Bíllinn sem var rétt hjá skaddaðist sömuleiðis en Magnús segir að afturrúða hans hafi skemmst þegar vír úr krananum slengdist í hann.

Mikið óveður hefur gengið yfir mest allt land í dag og var víða hvasst á höfuðborgarsvæðinu þegar atvikið átti sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×