Innlent

Barði í glugga skart­gripa­verslunar með járn­stöng

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var handtekinn af lögreglu.
Maðurinn var handtekinn af lögreglu. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók um miðnætti mann sem hafði verið að berja í glugga skartgripaverslunar við Laugaveg í ­miðborg Reykjavíkur.

Í skeyti frá lögreglu segir að þegar maðurinn hafi verið handtekinn hafi hann verið kominn í næstu götu. Mun hann hafa verið að slá járninu í bíla á leið sinni, að því er haft er eftir sjónarvotti. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Heimsóttu 33 staði

Einnig segir frá því að lögregla hafi verið inn á 33 staði til að kanna ráðstafanir þegar kemur að sóttvörnum og tveggja metra reglu. Alls þurftu tíu staðir að gera úrbætur og bæta skipulagið, en ekki voru neinir staðir heimsóttir þar sem ráðstafanir voru með öllu óviðunandi þannig að loka þyrfti. Alls voru því 23 staðir með sín mál í mjög góðu ástandi líkt og segir í skeyti lögreglu.

Braut rúðu og átti við útihurð

Á öðrum tímanum var tilkynnt um innbrot við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Þar var komið að manni þar sem hann var búinn að brjóta rúðu og að eiga við útihurð á kofa. Hann var sömuleiðis búinn að skemma tvær eftirlitsmyndavélar á svæðinu. Hann var handtekinn og gistir fangageymslu.

Í dagbók lögreglu segir einnig frá slysi í Garðabæ þar sem bíl hafði verið bakkað úr stæði sem er að finna á rampi. Bílnum var hins vegar bakkað of langt þannig að hann fór niður tröppur á rampinum og stöðvaði við inngang að húsi. Tjón varð á bílnum, en ekki urðu miklar skemmdir á húsinu sjálfu þó að blómapottur hafi brotnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×