Innlent

Miður að frétt Ríkisútvarpsins hafi ekki verið borin undir sérfræðinga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir taldi sig þurfa að leiðrétta nýlegan fréttaflutning í ræðu sinni á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir taldi sig þurfa að leiðrétta nýlegan fréttaflutning í ræðu sinni á upplýsingafundi almannavarna í dag. lögreglan

Sóttvarnalæknir vill árétta að nær öll sem sem sýkjast af kórónuveirunni sýkist ekki af henni aftur. Frétt Ríkisútvarpsins sem gaf annað í skyn hafi ekki verið borin undir sérfræðinga, sem byggi mat sitt á gögnum, og sé það miður. Að öðru leyti hafi hann lítið út á fréttaflutning af faraldrinum að setja.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir gerði athugasemd við frétt Ríkisútvarpsins í gærkvöld þar sem rætt var við unga konu. Sú hafði smitast af Covid-19 fyrr á þessu ári en sagðist ekki hafa mælst með mótefni við veirunni og óttaðist því að geta fengið sýkinguna aftur.

Þórólfur setti út á það á fundi almannavarna í dag að þessi ótti hennar hafi ekki verið borinn undir sérfræðinga, eins og smitsjúkdómalækna - „og er það miður,“ sagði Þórólfur.

„Ég vil því árétta að við viljum koma þeim skilaboðum áfram, og gerum enn, að nánast allir sem fengið hafa Covid fái sýkinguna ekki aftur. Bæði styðjumst við þar við okkar eigin gögn og það eru ekki rapport um það erlendis frá,“ sagði Þórólfur.

Hann bætti við að þó svo að einstaklingar mælist ekki með mótefni telji þau engu að síður viðkomandi geti verið með annars konar ónæmi - „svokallað frumubundiðónæmi sem mælist ekki með mótefnamælingu,“ sagði Þórólfur.

Hann vildi þó taka fram að fréttamiðlar hafi almennt flutt fréttir af yfirvegun um kórónuveirufaraldurinn og hvatti hann fjölmiðla til þess að gera það áfram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×