Innlent

Hönnuðu vagn tileinkaðan trans fólki

Sylvía Hall skrifar
Elías Breki, Ugla Stefanía, Svanhvít Ada og Sæborg Ninja sjást hér við transvagninn sem mun keyra um götur höfuðborgarsvæðisins.
Elías Breki, Ugla Stefanía, Svanhvít Ada og Sæborg Ninja sjást hér við transvagninn sem mun keyra um götur höfuðborgarsvæðisins. Strætó

Strætó hefur látið hanna strætisvagn tileinkaðan trans fólki á Íslandi og réttindabaráttu þeirra í tilefni Hinsegin daga 2020. Formaður Trans Íslands segir sýnileika trans fólks og hinsegin fólks vera mikilvægan í baráttunni.

Hinsegin dagar fara fram með öðru sniði í ár og var til að mynda ákveðið að aflýsa Gleðigöngunni, sem hefur löngum verið hápunktur hátíðarhaldanna. Þó vildi Strætó leggja sitt af mörkum til að halda í gleðina og fagna fjölbreytileikanum líkt og segir í fréttatilkynningu.

„Þrátt fyrir að Ísland sé komið tiltölulega framarlega í réttindabaráttunni miðað við sum önnur lönd þá fyrirfinnast enn þá fordómar og mismunun á íslensku samfélagi á flestum sviðum þjóðfélagsins,“ er haft eftir Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur í tilkynningu um framtakið.

„Baráttunni er því hvergi nærri lokið. Það er því frábært að sjá svona jákvæð og skýr skilaboð frá Strætó um trans fólk og réttindabaráttu okkar og fögnum við þessu frábæra og sýnilega frumkvæði.“

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir viðeigandi að Reykjavík Pride vagninn sé tileinkaður trans fólki á Íslandi í ljósi þess hversu áberandi barátta þeirra hefur verið undanfarið.

„Nýjasta framfaraskrefið á Íslandi voru lög um kynrænt sjálfræði. Okkur fannst því viðeigandi að Reykjavík Pride vagninn í ár sé tileinkaður trans fólki á Íslandi“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×