Innlent

Gera þarf ráðstafanir til að takmarka farþegafjölda ef ríkjum verður bætt aftur á hættulista

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ríflega tvö þúsund sýni hafa verið tekin á landamærum undanfarna daga.
Ríflega tvö þúsund sýni hafa verið tekin á landamærum undanfarna daga. Vísir/Vilhelm

Gera þarf ráðstafanir til að takmarka fjölda farþega sem koma til landsins ef ríkjum á hættulista verður fjölgað að mati sóttvarnalæknis. Umfang skimunar á landamærum er nú þegar að nálgast þolmörk hvað varðar afkastagetu.

Sem stendur þurfa þeir sem koma til landsins frá Finnlandi, Noregi, Danmörku, Færeyjum, Grænlandi og Þýskalandi, hvorki að fara í skimun né sóttkví. Til skoðunar er hvort einhver þessara ríkja fari aftur á hættulista að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.

„Við erum að skoða aukninguna á tilfellum í þessum löndum og sjá hvort að það er tilefni til að setja þau aftur á hættulista. Það er bara ekki búið að taka endanlega ákvörðun um það,“ segir Þórólfur.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.Vísir/Vilhelm

Það flækir málin að stór hluti þeirra sem kemur til landsins kemur frá þessum ríkjum, þar af flestir frá Danmörku og Þýskalandi. „Það mun breyta töluverðu varðandi okkar getu til að taka sýni því að við erum með ákveðna takmörkun á því hér innanlands. En fyrst og fremst erum við náttúrlega bara að hugsa um það að reyna að lágmarka áhættuna af því að veiran komist hingað inn til lands.“

Sem dæmi voru tekin rúmlega tvö þúsund sýni á landamærum í fyrradag en alls komu um 3400 farþegar til landsins þann dag. Gefur því augaleið, að ef þessum ríkjum yrði bætt aftur á hættulista, myndi það auka álag við skimun á landamærum en afkastagetan nú miðast við um og yfir tvö þúsund sýni á dag. Ef til þess kemur þyrfti að gera ráðstafanir til að takmarka fjölda þeirra sem koma til landsins að mati Þórólfs.

„Það finnst mér alla veganna og það er ósköp einfalt að ef við höfum takmarkaða getu til sýnatöku og ætlum að miða farþegafjöldann til landsins við það að þá þurfum við að hafa einhver úrræði til að takmarka enn frekar. En þetta er bara allt í skoðun og hvað kemur út úr því er svo sem erfitt að segja á þessari stundu,“ segir Þórólfur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.