Fótbolti

Tuttuguogsex Evrópuleikir í ágúst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vinnur Real Madrid Meistaradeild Evrópu í fimmta sinn á síðustu sjö árum?
Vinnur Real Madrid Meistaradeild Evrópu í fimmta sinn á síðustu sjö árum? getty/Gonzalo Arroyo Moreno

Í vikunni verður þráðurinn tekinn upp að nýju í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni eftir tæplega fimm mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins.

Sextán liða úrslitunum í Meistara- og Evrópudeildinni lýkur í þessari viku. Í næstu viku hefjast svo átta liða úrslitin í keppnunum.

Alls fara 26 leikir fram í Meistara- og Evrópudeildinni í ágúst. Leikdagar eru alls sextán talsins. Þessi mikla törn, „Evrópuágúst“, hefst á morgun, 5. ágúst, og lýkur með úrslitaleik Meistaradeildarinnar sunnudaginn 23. ágúst.

Vegna kórónuveirufaraldursins verður fyrirkomulag Meistara- og Evrópudeildarinnar nokkuð frábrugðið frá því sem venjulega er. Aðeins þarf að vinna einn leik í átta liða og undanúrslitunum og allir leikirnir frá og með átta liða úrslitum fara fram á hlutlausum völlum.

Allir leikirnir í Meistaradeildinni fara fram í Lissabon, höfuðborg Portúgals, á Estádio da Luz, heimavelli Benfica, og Estádio José Alvalade, heimavelli Sporting. Ljósvangur hýsir úrslitaleikurinn 23. ágúst.

Úrslitakeppnin í Evrópudeildinni fer fram í fjórum borgum í Þýskalandi; Köln, Düsseldorf, Gelsenkirchen og Duisburg. Úrslitaleikurinn verður á RheinEnergieStadion í Köln 21. ágúst.

Fjórir leikir fara fram í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar á morgun. Manchester United tekur á móti LASK Linz, Istanbul Baseksehir sækir FC København heim, Shakhtar Donetsk og Wolfsburg eigast við í Kænugarði og Inter og Getafe mætast í Gelsenkirchen. 

Aðeins einn leikur verður í rimmum Inter og Getafe og Sevilla og Roma en fyrri leikjum þeirra í sextán liða úrslitunum var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

Á fimmtudaginn mætast svo Wolves og Olympiacos, Bayer Leverkusen og Rangers, Sevilla og Roma og Basel og Frankfurt.

Meistaradeildin tekur síðan við á föstudaginn þegar Manchester City tekur á móti Real Madrid og Lyon sækir Juventus heim. City vann fyrri leikinn gegn Real Madrid, 1-2, og Lyon er með eins marks forystu eftir 1-0 sigur á Juventus í fyrri leik liðanna.

Sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar lýkur svo á laugardaginn með leikjum Barcelona og Napoli og Bayern München og Chelsea. Lítil spenna er fyrir síðarnefndu viðureignina en Bæjarar unnu fyrri leikinn í London, 0-3. Fyrri leikur Napoli og Barcelona endaði með 1-1 jafntefli.

Búið er að draga í átta liða úrslit Meistara- og Evrópudeildarinnar. Dráttinn má sjá hér fyrir neðan.

Allir leikirnir í Meistaradeildinni verða sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og meirihluti leikjanna í Evrópudeildinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.