Innlent

Erfitt að elta góða veðrið um verslunarmannahelgina

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Helgin verður nánast sólarlaus og einhver væta í flestum landshlutum ef ekki öllum.
Helgin verður nánast sólarlaus og einhver væta í flestum landshlutum ef ekki öllum. VÍSIR

Erfitt verður að elta góða veðrið um helgina. Djúp lægð nálgast landið úr suðri og verður hún viðloðandi alla helgina. Gul viðvörun er í gildi á Suður- og Austurlandi fram á kvöld. 

Lægðinni fylgir stíf austan- og norðaustanátt en hvassvirði eða stormur er við suðausturströndina fram eftir degi. Um helgina verður blautt í öllum landshlutum og nokkuð vindasamt einkum í dag.

Appelsínugul stormviðvörun var í gildi á Suðausturlandi vegna hvassviðris fram til hádegis en nú hefur tekið við gul viðvörun á Suður- og Austurlandi sem gildir fram á kvöld.

„Og svo er einnig viðvörun vegna mikillar rigningar á Austfjörðun sem sömuleiðis er í gildi í dag og það rignir einnig talsvert eða mikið á Suðausturlandi þannig að við erum að vara við því í dag,“ sagði Þorsteinn V. Jónsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum á Austfjörðum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum sem getur valdið tjóni. Er fólk beðið um að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Hvassast verður undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli í dag, þar verður vindhraði um 15 til 20 metrar á sekúndu og geta vindhviður náð 30 metrum á sekúndu. Þar geta jafnframt skapast hættuleg akstursskilyrði fyrir ökutæki á ferðinni, sérstaklega þau sem draga aftanívagna.

Veðrir mun þó skána á landinu á morgun, hægari vindur og lítilsháttar væta nema suðaustantil á landinu. Hiti yfirleitt 10 til 17 stig, hlýjast Norðan- og Vestanlands.

„Það er náttúrulega ekkert sérstakt veður á Suðuausturlandi og austfjörðum í dag en það skánar á morgun og verður mjög svipað veður á laugardag til mánudags. Frekar breytilegur vindur og ekkert mjög hvasst. Eiginlega sólarlaust og einhver væta í flestum landshlutum ef ekki öllum,“ Þorsteinn V. Jónsson.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.