Innlent

Erfitt að elta góða veðrið um verslunarmannahelgina

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Helgin verður nánast sólarlaus og einhver væta í flestum landshlutum ef ekki öllum.
Helgin verður nánast sólarlaus og einhver væta í flestum landshlutum ef ekki öllum. VÍSIR

Erfitt verður að elta góða veðrið um helgina. Djúp lægð nálgast landið úr suðri og verður hún viðloðandi alla helgina. Gul viðvörun er í gildi á Suður- og Austurlandi fram á kvöld. 

Lægðinni fylgir stíf austan- og norðaustanátt en hvassvirði eða stormur er við suðausturströndina fram eftir degi. Um helgina verður blautt í öllum landshlutum og nokkuð vindasamt einkum í dag.

Appelsínugul stormviðvörun var í gildi á Suðausturlandi vegna hvassviðris fram til hádegis en nú hefur tekið við gul viðvörun á Suður- og Austurlandi sem gildir fram á kvöld.

„Og svo er einnig viðvörun vegna mikillar rigningar á Austfjörðun sem sömuleiðis er í gildi í dag og það rignir einnig talsvert eða mikið á Suðausturlandi þannig að við erum að vara við því í dag,“ sagði Þorsteinn V. Jónsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum á Austfjörðum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum sem getur valdið tjóni. Er fólk beðið um að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Hvassast verður undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli í dag, þar verður vindhraði um 15 til 20 metrar á sekúndu og geta vindhviður náð 30 metrum á sekúndu. Þar geta jafnframt skapast hættuleg akstursskilyrði fyrir ökutæki á ferðinni, sérstaklega þau sem draga aftanívagna.

Veðrir mun þó skána á landinu á morgun, hægari vindur og lítilsháttar væta nema suðaustantil á landinu. Hiti yfirleitt 10 til 17 stig, hlýjast Norðan- og Vestanlands.

„Það er náttúrulega ekkert sérstakt veður á Suðuausturlandi og austfjörðum í dag en það skánar á morgun og verður mjög svipað veður á laugardag til mánudags. Frekar breytilegur vindur og ekkert mjög hvasst. Eiginlega sólarlaust og einhver væta í flestum landshlutum ef ekki öllum,“ Þorsteinn V. Jónsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.