Innlent

Funda með lög­manns­stofu Sam­herja í septem­ber

Kjartan Kjartansson skrifar
Rannsókn á málefnum Samherja í Namibíu stendur yfir hjá héraðssaksóknara.
Rannsókn á málefnum Samherja í Namibíu stendur yfir hjá héraðssaksóknara. Vísir/Vilhelm

Héraðssaksóknari ætlar að funda með lögmönnum frá Wikborg Rein, norskri lögmannsstofu sem Samherji réði til að rannsaka rekstur sinn í Namibíu, í september. Samherji segist ætla að bjóða fram „aðstoð“ vegna rannsókna á spillingarásökunum.

Eftir að ásakanir komu fram um að félög Samherja hefðu greitt embættismönnum í Namibíu mútur til að fá aðgang að aflaheimildum og komið fjármunum undan skatti í vetur tilkynnti Samherji að fyrirtækið hefði ráðið Wikborg Rein til þess að rannsaka reksturinn í Namibíu.

Tilkynnt var um lok rannsóknar norsku stofunnar á miðvikudag en ekki niðurstöðum. Þar kom einnig fram að samkomulag lægi fyrir um að lögmenn Wikborg Rein funduðu með embætti héraðssaksóknara með haustinu. Samherji ætli að bjóða fram aðstoð vegna rannsókna á ásökununum í Namibíu.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, staðfestir við Vísi að fundur með lögmönnum Wikborg Rein sé áætlaður í september að ósk þeirra. Embættið hafi áður fundað með lögmönnum stofunnar. Hann segist ekki geta sagt til um það á þessari stundu hvort að héraðssaksóknari tæki við eða falaðist eftir gögnum úr rannsókn Wikborg Rein.

Nokkrir sagðir með réttarstöðu grunaðra

Rannsóknir standa yfir á málefnum Samherja í Namibíu og á Íslandi. Héraðssaksóknar og skattrannsóknastjóri eru með málið á sinni könnu hér á landi. Ólafur Þór hefur lítið viljað tjá sig um framgang rannsóknarinnar hér.

Í síðustu viku greindi Kjarninn frá því að nokkrir einstaklingar hefðu réttarstöðu grunaðra í rannsókninni á Íslandi, þar á meðal Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, sem hefur sagst hafa framið glæpi þar í landi fyrir hönd fyrirtækisins.

Heimildir Vísi hermdu þá að yfirheyrslur hefðu farið fram hjá embætti héraðssaksóknara vegna rannsóknarinnar.


Tengdar fréttir

Rannsókn lögmannsstofu Samherja á ásökunum lokið

Norska lögmannsstofan Wikborg Rein hefur lokið rannsókn á starfsemi Samherja í Namibíu. Ekki er ljóst hvort og hvaða niðurstöður hennar verða birtar. Samherji réði stofuna til að rannsaka starfsemina eftir að ásakanir komu fram um umfangsmiklar mútugreiðslur og skattsvik.

Yfirheyrslur hafa farið fram í rannsókn á Samherja

Héraðssaksóknari hefur yfirheyrt einstaklinga í tengslum við rannsókn hans á málefnum Samherja í Namibíu. Kjarninn fullyrðir að nokkrir einstaklingar hafi réttarstöðu grunaðra í íslenskri rannsókn málsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.