Innlent

Rólegir dagar í veðrinu fram að helgi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það ætti að viðra ágætlega til golfiðkunar næstu daga.
Það ætti að viðra ágætlega til golfiðkunar næstu daga. Vísir/vilhelm

Næstu dagar verða nokkuð rólegir veðurfarslega séð ef marka má spákort Veðurstofunnar. Búast má við einhverri bleytu í öllum landshlutum í dag og jafnframt má gera ráð fyrir hægviðri á landinu. Hvassast verður við suðurströndina síðdegis, þar sem blása mun úr vestri og vænta má vindhraða á bilinu 5 til 10 m/s.

Þannig gerir Veðurstofan ráð fyrir að það verði skýjað með köflum og úrkomulítið í dag en þykkni upp með dálítilli rigningu eða súld vestanlands í kvöld. Hiti verði á bilinu 8 til 18 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Veðurfræðingur segir að það verði áfram hæglætisveður á morgun, skýjað með köflum og einhverjar minniháttar skúrir. Hitinn verði aftur á bilinu 8 til 18 stig og áfram hlýjast á Suðausturlandi. Því líti út fyrir „rólega daga í veðrinu fram að helgi,“ eins og veðurfræðingur kemst að orði.

Fram kom í fréttum okkar í gær að búast megi við að viðvaranir verði gefnar út vegna lægðar sem virðist ætla að heiðra landsmenn með nærveru sinni um verslunarmannahelgi. Leiðindaveðri er spáð á föstudag en skaplegra verður á norðanverðu landinu á laugardag.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Hægviðri, skýjað að mestu og lítilsháttar væta í flestum landshlutum. Hiti 10 til 17stig yfir daginn, hlýjast á Suðausturlandi.

Á fimmtudag:

Austan 3-10 m/s, hvassast syðst og á annesjum N-til. Skýjað með köflum, en þurrt og hiti 10 til 16 stig, en svalara í þokulofti við A-ströndina. Norðaustan strekkingur við SA-ströndina seint um kvöldið og fer að rigna.

Á föstudag:

Austlæg átt 5-13 m/s, en 10-15 við SA-ströndina framan af degi, og rigning um mest allt land, minnst vestanlands. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á Vesturlandi.

Á laugardag:

Norðlæg eða breytileg átt. Rigning á suðaustanverðu landinu sem styttir upp síðdegis, en rigning og kalt veður á norðanverðu landinu, einkum Norðvesturlandi og Ströndum. Hiti 8 til 15 stig sunnan- og austantil, en 3 til 8 stig fyrir norðan.

Á sunnudag:

Snýst í vestlæga átt og styttir upp norðvestantil með deginum. Skýjað að mestu, en úrkomulítið annars staðar. Hiti 8 til 14 stig.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.