Innlent

Rólegir dagar í veðrinu fram að helgi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það ætti að viðra ágætlega til golfiðkunar næstu daga.
Það ætti að viðra ágætlega til golfiðkunar næstu daga. Vísir/vilhelm

Næstu dagar verða nokkuð rólegir veðurfarslega séð ef marka má spákort Veðurstofunnar. Búast má við einhverri bleytu í öllum landshlutum í dag og jafnframt má gera ráð fyrir hægviðri á landinu. Hvassast verður við suðurströndina síðdegis, þar sem blása mun úr vestri og vænta má vindhraða á bilinu 5 til 10 m/s.

Þannig gerir Veðurstofan ráð fyrir að það verði skýjað með köflum og úrkomulítið í dag en þykkni upp með dálítilli rigningu eða súld vestanlands í kvöld. Hiti verði á bilinu 8 til 18 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Veðurfræðingur segir að það verði áfram hæglætisveður á morgun, skýjað með köflum og einhverjar minniháttar skúrir. Hitinn verði aftur á bilinu 8 til 18 stig og áfram hlýjast á Suðausturlandi. Því líti út fyrir „rólega daga í veðrinu fram að helgi,“ eins og veðurfræðingur kemst að orði.

Fram kom í fréttum okkar í gær að búast megi við að viðvaranir verði gefnar út vegna lægðar sem virðist ætla að heiðra landsmenn með nærveru sinni um verslunarmannahelgi. Leiðindaveðri er spáð á föstudag en skaplegra verður á norðanverðu landinu á laugardag.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Hægviðri, skýjað að mestu og lítilsháttar væta í flestum landshlutum. Hiti 10 til 17stig yfir daginn, hlýjast á Suðausturlandi.

Á fimmtudag:

Austan 3-10 m/s, hvassast syðst og á annesjum N-til. Skýjað með köflum, en þurrt og hiti 10 til 16 stig, en svalara í þokulofti við A-ströndina. Norðaustan strekkingur við SA-ströndina seint um kvöldið og fer að rigna.

Á föstudag:

Austlæg átt 5-13 m/s, en 10-15 við SA-ströndina framan af degi, og rigning um mest allt land, minnst vestanlands. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á Vesturlandi.

Á laugardag:

Norðlæg eða breytileg átt. Rigning á suðaustanverðu landinu sem styttir upp síðdegis, en rigning og kalt veður á norðanverðu landinu, einkum Norðvesturlandi og Ströndum. Hiti 8 til 15 stig sunnan- og austantil, en 3 til 8 stig fyrir norðan.

Á sunnudag:

Snýst í vestlæga átt og styttir upp norðvestantil með deginum. Skýjað að mestu, en úrkomulítið annars staðar. Hiti 8 til 14 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.