Vegagerðin hefur boðið út tvo fyrstu kaflana í endurnýjun vegarins um Dynjandisheiði, samtals um tíu kílómetra langa. Góð sátt virðist ríkja um þessa áfanga og er ekki vitað til þess að nein samtök eða stofnanir hafi lýst andstöðu við þær veglínur sem núna eru boðnar út.
Kaflarnir eru annars vegar 5,7 kílómetra langur kafli við Þverdalsá, um Pennusneiðing ofan Flókalundar, og nær hann langleiðina að gatnamótum Bíldudalsvegar á heiðinni.

Hins vegar 4,3 kílómetra kafli fyrir Meðalnes, milli Dynjandisvogs og Borgarfjarðar í Arnarfirði, en upphaf hans er við Mjólkárvirkjun. Sá kafli mun tengjast nýja veginum sem verið er að klára að Dýrafjarðargöngum.
Vegurinn við Þverdalsá er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Vegurinn fyrir Meðalnes er alfarið byggður í nýju vegstæði, að því er fram kemur í frétt á vef Vegagerðarinnar.

Tilboðsfrestur rennur út 18. ágúst næstkomandi og eiga báðir verkhlutar að klárast á aðeins einu ári. Útlögn efra lags klæðingar skal lokið 31. ágúst 2021. Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2021.