Innlent

Tekur ekki undir gagnrýni yfirlæknis sem sagði skimun LSH vera „sóun á almannafé“

Andri Eysteinsson skrifar
Forstjórinn segir ummæli yfirlæknis bera vott af þröngu sjónarhorni á hlutverk háskólasjúkrahússins.
Forstjórinn segir ummæli yfirlæknis bera vott af þröngu sjónarhorni á hlutverk háskólasjúkrahússins. Vísir/Vilhelm

„Nei bara alls ekki. Það er mjög röng nálgun eða þröngt sjónarhorn á hlutverk háskólasjúkrahússins. Ég geri hins vegar alls ekki athugasemdir við það að fólk hafi mismunandi skoðanir. Ég þarf ekki að vera sammála þeim.

Forstjóri Landspítalans segir að ummæli yfirlæknis Covid-deildar spítalans lýsti mjög rangri nálgun eða þröngu sjónarhorni á hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahúss. Frá þessu greindi Páll Matthíasson í svari á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar í dag.

Ragnar Freyr Ingólfsson, yfirlæknir á Covid-göngudeild, sagði fyrr í mánuðinum að það væri augljós sóun á almannafé að Landspítalinn verji milljörðum króna í skimanir fyrir kórónuveirunni. Óþarfi sé að skima erlenda ferðamenn og best væri að beita stuttri sóttkví.

Þá sagði Ragnar í Facebook-færslu að það væri ekki hlutverk háskólasjúkrahússins, hvar starfsfólk hafi næg verkefni á sinni könnu, að sinna frísku fólki. „Hvað er næst, að við sinnum þrifum í Smáralind?“ spurði Ragnar í pistli sínum.

Páll kvaðst ekki geta tekið undir orð Ragnars og sagði nálgun hans ranga, hann gerði þó ekki athugasemd við það að hann hefði aðra skoðun en Páll sjálfur.

„Hlutverk Landspítala er mjög vítt. Hann er háskólasjúkrahús og á að vera bakhjarl í flókinni og sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu. Hann er líka menntastofnun og vísindastofnun,“ sagði Páll á fundinum í dag spurður hvort hann vildi frekar að skimanir væru ekki á borði Landspítala og hægt yrði að einbeita sér að öðrum verkefnum.

„Öll nálgun á nýrri farsótt kallar á aðkomu háskólasjúkrahússins þannig að mér finnst það alls ekki óeðlilegt [að spítalinn sinni skimun],“ sagði Páll sem bætti við að samkvæmt samningi milli Landspítala og sóttvarnalæknis væri það hlutverk spítalans að taka við verkefninu þegar skilgreint er að þess sé þörf.

„Ég sé enga ástæðu til þess að gagnrýna það og ég tel það eðlilegt,“ sagði Páll.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×