Innlent

Veðurviðvörun fyrir Vestfirði orðin appelsínugul

Kjartan Kjartansson skrifar
Veðurstofan hefur hækkað viðvörun á Vestfjörðum í appelsínugula.
Veðurstofan hefur hækkað viðvörun á Vestfjörðum í appelsínugula. Veðurstofan

Varað er við mikilli rigningu og hættu á skriðuföllum í appelsínugulri viðvörun sem Veðurstofan hefur gefið út fyrir Vestfirði og gildir langt fram á annað kvöld. Gul veðurviðvörun hefur verið gefin út vegna hvassviðris og úrkomu fyrir landið vestan- og norðanvert.

Gert var ráð fyrir versta veðrinu á Vestfjörðum í allhvassri norðaustanátt í dag og á morgun. Nú síðdegis uppfærði Veðurstofan gula viðvörun í appelsínugula fyrir Vestfirði. Hún gildir frá klukkan 16:30 í dag til miðnættis annað kvöld.

Búist er við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum og að vöð getið orðið varhugarverð og jafnvel ófær. Þá er varað við hættu á skriðum og grjóthruni. Rigning er einnig talin munu auka álag á fráveitukerfi og fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Einnig er varað við vatnavöxtum og skriðuföllum í veðrinu á Ströndum, Skaga og Tröllaskaga.

Spáð er mikilli úrkomu og leysingum við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul, með hækkandi vatnshæð og miklu rennsli í lækjum og ám. Vöð geta orðið varasöm og ferðafólk hvatt til þess að sýna aðgát við óbrúaðar ár.

Gular viðvaranir vegna veðurs nú síðdegis og í kvöld eru í gildi fyrir Vestfirði, Breiðafjörð, Strandir, Norðurland vestra og eystra og ná þær fram á laugardag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.