Erlent

Macron ver ráðherra sem er sakaður um nauðgun

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum gegn skipan nýs innanríkisráðherra í Frakklandi sem er sakaður um nauðgun fyrir rúmum áratug.
Frá mótmælum gegn skipan nýs innanríkisráðherra í Frakklandi sem er sakaður um nauðgun fyrir rúmum áratug. Vísir/EPA

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, varaði við því að nýskipaður innanríkisráðherra í ríkisstjórn hans ætti ekki að verða „fórnarlamb dómstóls götunnar“ vegna ásakana um að hann hafi nauðgað konu fyrir rúmum áratug. Hundruð kvenna hafa mótmælt skipan ráðherrans.

Gerald Darmanin var gerður að innanríkisráðherra í uppstokkun á ríkisstjórn Macron á dögunum. Hann hefur hafnað ásökun konu sem segir hann hafa nauðgað sér þegar hún leitaði til hans um aðstoð við að hreinsa sakarskrá sína árið 2009.

Málinu gegn Darmanin var vísað frá á sínum tíma eftir að forrannsókn var látin niður falla. Áfrýjunardómstóll í París skipaði fyrir um að málið skyldi rannsakað aftur þrátt fyrir að engin ný sönnunargögn hefðu komið fram í síðasta mánuði, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Mótmælendur kröfðust afsagnar Darmanin á götum Parísar í síðustu viku. Lögmenn Darmanin segja að ákvörðun dómstólsins í júní hafi verið formlegs eðlis. Hann hefði á móti lagt fram stefnu vegna meiðyrða.

Macron segist hafa fundað með Darmanin um ásakanirnar. Í sjónvarpsviðtali í dag sagði forsetinn að lýðræðið breyti um eðli ef fólk verður að fórnarlambi götunnar eða samfélagsmiðla við ásökun.

„Ég vil það besta fyrir landið okkar Frakkland, ég vil ekki það versta úr engilsaxnesku þjóðfélagi,“ sagði Macron.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×