Innlent

Sagðist ætla að „stúta“ fyrr­verandi eigin­konu sinni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/vilhelm

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku dæmdur í tólf mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundna, fyrir að hóta fyrrverandi eiginkonu sinni og barnsmóður lífláti í gegnum tölvupóst. Þá var hann einnig dæmdur fyrir brot á nálgunarbanni gagnvart konunni með ítrekuðum tölvupóstsendingum.

Maðurinn var annars vegar ákærður fyrir brot í nánu sambandi með því að hafa í maí í fyrra sent fyrrverandi eiginkonu sinni tölvupóst og hótað henni lífláti, sem var til þess fallið að vekja hjá henni ótta um líf sitt og velferð. Ákæran laut að eftirfarandi skilaboðum: „Ég ætla að stúta þér.“

Þá var maðurinn einnig ákærður fyrir brot á nálgunarbanni með því að hafa á um vikutímabili í maí og júní 2019 sent fyrrverandi eiginkonu sinni tölvupóst. Tölvupóstarnir voru á þriðja tug. Þá var honum einnig gefin að sök eldri brot á nálgunarbanni gagnvart konunni á mánaðartímabili í desember og janúar síðastliðnum. Þar var um að ræða tæplega tuttugu tölvupósta.

Í dómi segir að maðurinn hafi játað brot sín skýlaust og taldist sannað að hann hefði gerst sekur um brot sín. Maðurinn hafði áður verið dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir brot í nánu sambandi í nóvember 2017 og afplánaði óskilorðsbundinn hluta þeirrar refsingar, eða þrjá mánuði. Brotin sem hann var nú sakfelldur fyrir voru að hluta framin innan skilorðs.

Litið var til þess við ákvörðun refsingar að maðurinn játaði brot sín og þá lá fyrir ítarlegt vottorð frá geðlækni hans, þar sem margþættur geðvandi hans er rakinn. Þá hefur maðurinn sótt meðferð hjá Heimilisfriði, meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum.

Hins vegar var einnig litið til þess að brot mannsins beindust gegn fyrrverandi eiginkonu hans og barnsmóður. Brotin voru litin alvarlegum augum enda lét hann sér ekki segjast eftir að hann var dæmdur árið 2017, að því er segir í dómi. Þar hafi hann brotið gróflega og ítrekað gegn friðhelgi konunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.