Innlent

Bjóða út fyrsta áfanga vegar í Gufudalssveit

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kaflinn sem núna er boðinn út er 6,6 kílómetra langur og liggur meðfram vesturströnd Gufufjarðar, milli Skálaness og Gufudals.
Kaflinn sem núna er boðinn út er 6,6 kílómetra langur og liggur meðfram vesturströnd Gufufjarðar, milli Skálaness og Gufudals. Mynd/Vegagerðin.

Vegagerðin hefur boðið út endurbyggingu og breikkun Vestfjarðavegar á 6,6 kílómetra kafla frá Gufudalsá að Skálanesi. Þetta er fyrsti áfanginn í hinu umdeilda verkefni um Teigsskóg. Hann snertir þó ekki þau svæði sem harðast hefur verið tekist á um, veglínuna um sjálfan Teigsskóg og þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Greint var frá útboðinu í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Áfanginn sem boðinn er út núna liggur meðfram vesturströnd Gufufjarðar og skiptist í tvo kafla: Annars vegar 5,4 kílómetra langan kafla frá Gufudalsá að Melanesi. Sá kafli er ekki hluti af framtíðar Vestfjarðavegi en mun þjóna sem þjóðbraut þar til heildarverkinu lýkur og eftir það verða sveitavegur fyrir Gufudal. Hins vegar 1,2 kílómetra langan kafla frá Melanesi að Skálanesi, en sá kafli er hluti af framtíðar Vestfjarðavegi.

Vegagerðin ákvað að bjóða út þessa fyrstu kafla eftir að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í síðasta mánuði kröfu Landverndar um bráðabirgðastöðvun framkvæmda. Enn vantar þó grænt ljós á umdeildasta kaflann um sjálfan Teigsskóg en nefndin hefur gefið út að úrskurðað verði um þann þátt eigi síðar en í haust.

Samkvæmt auglýsingu rennur útboðsfrestur út þann 11. ágúst. Verktaki hefur þá innan við eitt ár til að klára verkið, sem skal að fullu lokið 15. júlí 2021.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í síðasta mánuði um útboðið:


Tengdar fréttir

Reiðialda gegn Landvernd í vestfirska fréttamiðlinum

Ákvörðun Landverndar í síðustu viku um að kæra framkvæmdaleyfi Vestfjarðavegar um Teigsskóg hefur kallað fram reiðibylgju á Vestfjörðum. Hvatt er úrsagna úr Landvernd og þess að krafist að opinberum fjárstuðningi við samtökin verði hætt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×