Innlent

Kafbátarleitarvél mun sveima yfir Hellu á morgun

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Matthías Sveinbjörnsson forseti Flugmálafélags Íslands, sem stendur fyrir Flughátíðinni á Hellu.
Matthías Sveinbjörnsson forseti Flugmálafélags Íslands, sem stendur fyrir Flughátíðinni á Hellu. Vísir/Magnús Hlynur

Dönsk björgunarþyrla frá danska hernum og kafbátaleitarvél verða á sveimi yfir Hellu á morgun sem hluti af dagskrá flughátíðarinnar „Allt sem flýgur“ um helgina.

Hátíðin á Hellu er á vegum Flugmálafélags Íslands en þar koma saman áhugamenn um flug víðs vegar af landinu með flugvélar sínar til að fljúga, bera saman bækur sínar og eiga góða stund með félögunum. Hátíðin er opin öllum.

„Við leggjum mikla áherslu á það að vera með sem fjölbreyttasta flota og sýna allt frá drónum og upp í stærri vélar. Það kemur stór kafbátaleitarvél hérna og flýgur yfir svo dæmi sé tekið. Við verðum líka með þyrlur, svifflugur, paramótor og ég veit ekki hvað og hvað, það verður ýmislegt í boði. Það er mikill áhugi á flugi í landinu og ég held reyndar að flugáhugi hafi alltaf verið mjög mikill hjá þjóðinni og Íslendingar eru einhverra hluta vegna mjög mikil flugþjóð,“ segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands

Mattías segir að það verði bannað að ræða kórónuveiruna á flughátíðinni á Hellu.

„Já, við reynum að nota þessa daga til að gleyma henni en pössum samt upp á sóttvarnir og allt sem tengist því en þessa dagana ætlum við bara að reyna að lifa lífinu án veirunnar.“

Þrátt fyrir að Sveinbjörn Darri, sonur Mattíasar sé ekki nema fjórtán ára þá er hann forfallinn áhugamaður um flugvélar og verður að sjálfsögðu á flughátíðinni á Hellu.

„Það er ekkert annað sem ég hef haft mikinn áhuga á, þetta er bara svo skemmtilegt áhugamál, að vera upp í flugvél og hafa geggjað útsýni, það er mjög skemmtilegt,“ segir Matthías.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.