Innlent

Icelandair hefur um þrjár vikur til að ná samningum fyrir 30 milljarða hlutafjárútboð til björgunar félaginu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Icelandair
Icelandair VILHELM

Icelandair hefur aðeins rúma tuttugu daga til að ganga frá samingum við lánadrottna, Boeing verksmiðjurnar og flugfreyjur áður en fyrirhugað hlutafjárútboð til björgunar félaginu fer fram í byrjun ágúst. Samninganefndir fyrirtækisins og flugfreyja komu saman til fyrsta fundar í dag eftir að flugfreyjur kolfelldu nýgerðan kjarasamning.

Þann 26. júní var kjarasamningur Flugfreyjufélags Íslands kynntur félagsmönnum. Um 400 mættu á fundinn og úr salnum heyrðist reglulega dynjandi lófaklapp. Þá sagði formaður Flugfreyjufélagsins að hún ætti von á að samningurinn yrði samþykktur. 

„Já ég fer mjög bjartsýn inn í þessa viku og held að við endum með samþykktan samning,“ sagði Guðlaug Líney  Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands í viðtali eftir félagsfund Flugfreyjufélags Íslands þann 26. júní þar sem kjarasamningur var kynntur félagsmönnum.

12 dögum síðar var samningurinn kolfelldur.

Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair hittust í Karphúsinu klukkan þrjú í dag og lauk fundi klukkan hálf sjö. Annar fundur hefur verið boðaður í deilunni klukkan 14 á þriðjudag.

Samninganefndir byrjuðu á því að funda í sitt hvoru lagi í dag. Ljóst er að staðan er mjög snúin en forstjóri Icelandair segir að samningurinn hafi verið sá besti sem bauðst.

„Við komumst því miður ekkert lengra í þessum viðræðum. Við getum ekki boðið betur en við erum búin að bjóða,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Ég myndi halda að það væri öllum til heilla að félagið bakki með sínar kröfur og við getum þá skrifað undir nýjan samning sem yrði vonandi samþykktur,“ sagði Guðlaug.

Miðað við þessi orð beggja aðila ertu vongóður um að samningar náist yfir höfuð?

„Ég vakna vonglaður á hverjum degi það er ekkert víst að það klikki,“ sagði Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari.

Icelandair hefur sagt ætla að ljúka samningum í júlímánuði. Félagið hefur því rúma tuttugu daga til að semja við flugfreyjur auk þess að landa samningi við Boeing verksmiðjurnar vegna Max flugvélanna og afla gríðarlega mikils hlutajár fyrir hlutafjárútboðið sem fram fer í ágúst.

Hvað er hægt að gefa þessu margar tilraunir til viðbótar?

„Eins margar og þarf,“ sagði Aðalsteinn.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×