Innlent

Flugu til móts við óvæntar rússneskar sprengjuvélar

Andri Eysteinsson skrifar
F-35 flugvélar eru notaðar af ítalska flughernum hér á landi.
F-35 flugvélar eru notaðar af ítalska flughernum hér á landi. Getty/Stefano Montesi

Orrustuþotur ítalska flughersins, sem sinnt hafa loftrýmisgæslu hér á landi undanfarið, flugu í fyrrinótt til móts við rússneskar sprengjuflugvélar sem höfðu flogið án tilkynningar inn í íslenska loftrýmiseftirlitssvæðið, þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Flugvélarnar komu inn í loftrýmiseftirlitssvæðið án tilkynningar til flugumferðarstjórnar né voru þær með ratsjárvara í gangi. Unnið var eftir vinnureglum Atlantshafsbandalagsins og voru ítölsku orrustuþoturnar því ræstar og flugu þær til móts við þær óþekktu frá Keflavíkurflugvelli.

Að lokum tókst að auðkenna vélarnar suður af Stokksnesi. Þar reyndust á ferð langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar sem voru innan loftrýmiseftirlitssvæðis Atlantshafsbandalagsins en voru þó utan íslenskrar lofthelgi.

Ítalska flugsveitin, sem sinnir eftirlitinu hér á landi, er með sex F-35 orrustuþotur á landinu. Loftrýmisgæsla NATO við Ísland hefur staðið yfir frá júníbyrjun og heyrir verkefnið undir stjórnstöð bandalagsins í Uedem í Þýskalandi. Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á framkvæmdinni hér á landi í samvinnu við Isavia.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.