Innlent

Þvættuðu milljónir í gegnum snyrtistofuna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness á mánudag.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness á mánudag. Vísir/vilhelm

Tveir stjórnendur snyrtistofu í Kópavogi voru í Héraðsdómi Reykjaness í fyrradag dæmdar í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi og hvor um sig til greiðslu 8,5 milljóna sektar fyrir peningaþvætti.

Önnur konan er framkvæmdastjóri félagsins sem rekur snyrtistofuna og hin er titluð „daglegur stjórnandi“ í ákæru. Báðar eru þær jafnframt ákærðar sem stjórnarformenn félagsins. Þær voru ákærðar fyrir að hafa vanframtalið útskatt félagsins fyrir árin 2014 til 2017 og fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti, samtals að fjárhæð rúmum 5,8 milljónum króna. Konurnar játuðu skýlaust þessi brot sín.

Þá voru konurnar hvor um sig ákærðar fyrir peningaþvætti með því að hafa vanrækt að telja samtals um 30 milljónir króna fram til skatts. Þannig var framkvæmdastjóranum gefið að sök að hafa komið sér undan að greiða um 5,5 milljónir í skatt og stjórnandinn um sex milljónir króna.

Konurnar neituðu sök í þessum ákærulið. Þær deildu þó ekki um umrædda lýsingu málsatvika en héldu því fram fyrir dómi að háttsemi þeirra teldist ekki peningaþvætti. Dómurinn féllst hins vegar ekki á það og taldi brot þeirra teljast sönnuð og varða tilgreint lagaákvæði um peningaþvætti í ákæru.

Konurnar voru að endingu hvor um sig dæmdar í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi líkt og áður segir. Þá var þeim báðum gert að greiða sekt að upphæð 8,5 milljóna króna, auk þóknun verjenda að upphæð um 832 þúsund krónur hvor.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×