Innlent

Vigdísi blöskrar hispurslausar skreytingar á strætisvögnum

Jakob Bjarnar skrifar
Vigdís fær þetta hispursleysi ekki til að ganga upp, nema ef vera kynni að þarna væri um að ræða auglýsingu frá Ljósmæðrafélaginu?
Vigdís fær þetta hispursleysi ekki til að ganga upp, nema ef vera kynni að þarna væri um að ræða auglýsingu frá Ljósmæðrafélaginu? visir/vilhelm

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins spyr hvort þeir hjá Strætó séu að missa vitið?

Tilefni þeirra afgerandi vangaveltna hennar eru skreytingar sem sjá má á strætisvögnum og Vísir hefur reyndar greint frá. Sem sagt teikningu af konu sem er að fæða barn.

„Hverju á að ná fram með svona auglýsingum?“ spyr borgarfulltrúinn hissa og hneykslaður í senn á Facebooksíðu sinni.

Vigdís segir að nekt sé mjög viðkvæm hjá mörgum hópum í samfélaginu: „Og þetta blasir við börnum sem nota Strætó sem eiga að vera framtíðar kúnnar borgarlínu,“ segir Vigdís. Ljóst er að henni þykir þetta afar óviðeigandi.

Vigdís veltir því fyrir sér hvort þarna sé hugsanlega um keypta auglýsingu að ræða eða hvort verið geti að þetta sé að frumkvæði Stætó:

„Mér sýnist textinn vera „Við tökum vel á móti þér“ - er þetta auglýsing frá ljósmæðrafélaginu?“ spyr Vigdís enn.

Og Vigdís á kollgátuna með kenningu sem hún setti fram sem fráleita. Ljósmæðrafélag Íslands stendur að baki vagninum sem er rafvagn og fór í jómfrúarferð sína 24. júlí og var þá haldið af stað frá Spöng; teikningunni einmitt ætlað að vera til heiðurs þeirri dáðu stétt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.