„Ég hef aldrei áður tekið þátt í Innipúkanum en hlakka ofsalega til að gera gott gigg með Moses Hightower“, segir Birgitta Haukdal í samtali við Vísi. Nýlega tilkynntu skipuleggjendur Innipúkans að hljómsveitin Moses Hightower og Birgitta Haukdal muni leiða saman hesta sína í fyrsta skipti á Innipúkanum.
Innipúkinn verður haldinn í 19. sinn í miðborg Reykjavíkur um verslunarmannahelgina og er miðasala hafin í forsölu.
„Birgitta er náttúrulega fagmaður fram í fingurgóma, sem vilja snerta þessa mjúku sál, og það verður gaman að heyra hana spreyta sig á okkar allra vinsælustu ballsmellum auk síns eðalkatalógs“, segir Andri Ólafsson, bassaleikari Moses Higtower þegar hann er spurður um þetta óvænta samstarf.

Steinþór Helgi Arnsteinsson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, segir hefð hafa verið fyrir því á Innipúkanum að fá goðsögn til að koma fram með yngri hljómsveit og að skipuleggjendur Innipúkans hafi í mörg ár reynt að fá Birgittu til liðs við sig.
„Núna loksins, loksins gekk allt upp“, segir Steinþór Helgi um samstarfið.
Birgitta segir undirbúninginn á fullu þessa dagana og að allir séu með höfuðið í bleyti. Hún segir að mikið verði lagt í æfingar og framkomu til þess að gera útkomuna sem besta.
„Við höfum aldrei unnið saman áður og því verður þetta virkilega spennandi“, segir Birgitta en þetta er í fyrsta skipti sem hún sækir hátíðina.
„Þetta verður ferskt tvist fyrir bæði böndin en virkilega spennandi. Við munum koma fram á föstudagskvöldinu í Gamla bíói sem er bara geggjað. Innipúkinn er alltaf svo sjúklega flott hátíð svo að þetta verður klikkað“, segir Birgitta.
Sjálf segist Birgitta ekki vera að koma mikið fram þessa dagana og eyði því miklu púðri í að hugsa vel út hverja tónleika fyrir sig.
„Þetta er uppákoma sem að ég vil ekki missa af í ár“ segir Birgitta, en nýlega var tilkynnt að hátíðin flytur af Grandanum yfir í Gamla Bíó, og á efri hæð Röntgen og hluta af Ingólfsstræti.
Steinþór segir dagskránna í ár vera sérstaklega glæsilega og fjölbreytta og að tilkynnt verði um fleiri listamenn á næstu dögum og vikum.